Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 23:45:19 (7456)

2001-05-10 23:45:19# 126. lþ. 119.7 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv. 71/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[23:45]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nefna tvennt. Í fyrsta lagi það sem hv. þm. kom inn á að nokkrir eða einhverjir þingmenn Samfylkingarinnar hefðu við 1. umr. gert athugasemdir við málflutning þingmannsins og það væri til marks um að þingmaðurinn --- sem nú fór úr ræðustól --- hefði haft rétt fyrir sér að minni hlutinn, sem hér stendur, hefði flutt mikið af brtt. Þá vil ég vekja athygli þingmannsins á því að þær brtt. sem ég hef flutt, eða flestar hverjar, lúta að allt öðru heldur en um var rætt í 1. umr., þær lúta aðallega að skattalegri meðferð á framlagi stofnfjáreigenda og því um líku eins og ég fór yfir hér áðan, og ég tel að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa eftirlit með sjálfseignarstofnunum, sem alls ekkert var farið inn á í 1. umr.

Ein breytingin lýtur jú að því sem ég heyri að hv. þm. er mér ekki sammála um, það er að taka á og breyta því sem ég hef kallað mikil völd í krafti lítils eignarhluta, um það erum við ekki sammála.

En ég kom fyrst og fremst í ræðustól til þess að láta hv. þingmann vita af því að ég hefði rækilega passað upp á sjónarmið hans í nefndinni að því er varðar þessi B-deildar bréf, þó að ég sé ekkert endilega sammála þeim. Og ég vil upplýsa að fulltrúi Sambands íslenskra sparisjóða kom á fund nefndarinnar og sparisjóðsstjórinn hjá SPRON og þeir voru beinlínis spurðir að því hvort þeir teldu að þetta ákvæði sem hv. þm. nefnir um B-deildar bréfin ætti að vera valkvætt. Ekki að það ætti að koma í staðinn fyrir hlutafélagabreytinguna, heldur að það ætti að vera valkvætt. Og þeir sögðu báðir að það ætti ekki að vera og mæltu gegn því að það yrði.

Hér er vísað til umsagnar Sambands íslenskra sparisjóða um að þetta frv. njóti víðtæks stuðnings sparisjóðanna. Ég leitaði eftir því á þeim stutta tíma sem nefndin hafði, við ritara nefndarinnar að hún leitaði til nokkurra sparisjóða þar sem þeim var boðið upp á það úti á landi að koma með umsagnir ef þeir vildu um þetta mál og þeir neituðu því.

Þessu var því vel haldið til haga og það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að þingmaðurinn flytji sjálfur þetta ákvæði og láti reyna á það hér í atkvæðagreiðslu.