Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 10:03:23 (7460)

2001-05-11 10:03:23# 126. lþ. 120.8 fundur 638. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Um þau EES-mál og tilskipanir sem verið er að staðfesta hér og eru á dagskrá í dag er ekki ágreiningur og nefndin afgreiðir þau mál samhljóða úr nefnd. Því tel ég ekki ástæðu til að hafa neina umræðu um þau frekar en komið hefur fram í máli formanns nefndarinnar.

Ég ætla að nota tækifærið í upphafi, áður en við afgreiðum eða förum yfir þessar EES-gerðir, og nefna það að við höfum verið dugleg að taka EES-gerðir og samninga fyrir í utanrmn. og allmargir þeirra eru á dagskrá í dag og enn eiga eftir að koma á dagskrá mál eins og um INMARSAT-gervitunglakerfið. En það sem ég vil vekja athygli á hér í upphafi umræðu um utanríkismálin er að við höfum farið yfir eitt mál í utanrmn., 654. mál, og það er mál þar sem við fullgildum Árósasamning um aðgang að upplýsingum um þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Því nefni ég það hér, herra forseti, í umræðu um fyrsta málið í utanríkismálum að allt það sem fjallað er um í þessum samningi er komið í lög á Íslandi, nema réttur félagasamtaka til að fá þennan aðgang að upplýsingum í umhverfismálum. Ég hef óskað eftir því við formann nefndarinnar að við ljúkum störfum og afgreiðum þetta mál. Mér hefur fundist að vinsamleg viðbrögð væru við því hjá formanni nefndarinnar auk þess sem við eigum eftir að fjalla um það hvort við tökum og skoðum einhver þingmannamál, m.a. viðskiptabannið á Írak.

Ég nefni þetta hér vegna þess að aðgangur félagasamtaka að upplýsingum um umhverfismál er sjóðheitt pólitískt mál, ekki síst núna og miðað við hvað nefndin hefur verið öflug og dugleg að afgreiða alþjóðasamningana sem fyrir liggja í utanrmn., þá legg ég á þetta mikla áherslu og óska eftir því að þrýst verði á að þetta mál verði afgreitt.

Herra forseti. Að öðru leyti mun ég ekki taka til máls í þeim EES-málum sem koma hér á dagskrá.