2001-05-11 10:12:19# 126. lþ. 120.11 fundur 644. mál: #A samningur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef ritað undir nál. utanrmn. með fyrirvara í þessu máli. Skýringin er sú að þetta mál er bein afleiðing af þeirri ákvörðun að gera Ísland að aðila að eða hluta af Schengen-samstarfinu svonefnda. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að staða Íslands í þessu tilviki er sú að á okkur hvílir sú skylda að taka upp og koma í framkvæmd þessari ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Ég held að ástæða sé til þess, herra forseti, að vekja athygli á þeirri mjög svo sérstöku stöðu sem Ísland og Noregur eru í í þessu sambandi, í kjölfar þeirrar ákvörðunar að Ísland og Noregur séu aðilar að Schengen-samstarfinu, án þess að vera aðildarríki að Evrópusambandinu eins og kunnugt er.

Um þann þátt málsins fékkst ekki mikil umræða hér, herra forseti, um hinn stjórnskipulega og fullveldislega þátt í því máli. En það voru auðvitað mikil tímamót þegar sú ákvörðun var tekin að Ísland og Noregur yrðu áfram aðilar að Schengen-samstarfinu eftir að búið var að ákveða að innlima samstarfið og stofnanirnar í Evrópusambandið. En það var gert eins og kunnugt er með Amsterdam-breytingum á Evrópusáttmálanum og samstarfinu.

Nú er það svo, herra forseti, að efni þessarar ákvörðunar, þ.e. að koma í framkvæmd gagnkvæmri réttaraðstoð í sakamálum, er ekki tilefni til andstöðu, nema síður sé. Í sjálfu sér er það hið ágætasta milliríkjasamstarf og ekki nema gott um það að segja.

En ég á erfitt með að samþykkja fyrirvaralaust að Ísland sé í þeirri stöðu sem raun ber vitni og hér er ólíku saman að jafna, þeirri aðstöðu sem Ísland er í og önnur EFTA-ríki á grundvelli EES-samningsins, þar sem er þó um svonefnt tveggja stoða kerfi að ræða og samskiptin byggja á þeim grunni en þetta er ekki svo þegar Schengen-samstarfið á í hlut og Schengen-stofnanirnar, sem hafa nú verið innlimaðar í Evrópusambandið. Og það er Evrópusambandið sjálft og ráðherraráð Evrópusambandsins sem tekur ákvarðanir sem síðan eru skuldbindandi fyrir Ísland og Noreg.

Þetta sjá menn, herra forseti, þó ekki sé meira að gert en lesa upphaf 2. tölul. athugasemda við þáltill. þessa, en þar segir, með leyfi forseta:

[10:15]

,,Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. samningsins sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna hvílir sú skylda á Íslandi og Noregi að samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum Evrópusambandsins sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem um getur í viðaukum við Brussel-samninginn.``

Með Brussel-samningnum er átt við seinni samninginn af tveimur sem gildir um þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu, þ.e. sá samningur sem gerður var eftir að ákveðið var að innlima Schengen-stofnanirnar og samstarfsrammann inn í Evrópusambandið, þá þurfti að breyta þeim eldri samningi sem fyrir lá og kenndur er við Lúxemborg og var gerður á meðan Schengen-samstarfið var sjálfstætt milliríkjasamstarf og óviðkomandi Evrópusambandinu sem slíku.

Herra forseti. Fengnir voru lögfræðingar, sem eru oftast sömu lögfræðingarnir, til þess að finna út úr því að þetta væri allt í lagi í sambandi við stjórnarskrána. Ég man nú ekki hvort notað var svipað orðalag og um EES á sínum tíma, að ramminn þyldi þá sveigju sem þetta setti á stjórnarskrána. Menn bjuggu sér til ákaflega sérstakt orðalag á sínum tíma til að réttlæta að þetta væri nú allt í lagi gagnvart stjórnarskránni.

Ég átti alltaf voðalega erfitt með að sjá að það fyrirkomulag sem sjálfkrafa yrði til við að Schengen-samstarfið og stofnanirnar yrðu innlimaðar í Evrópusambandið sjálft væri ekki enn þá erfiðara viðfangs hvað þetta varðar. Mér finnst orðalagið sem hér er sett á blað og er örugglega rétt, nákvæmlega rétt, að svona ber að orða þetta, gefa vísbendingar um að staða Íslands sé ekki mjög burðug að þessu leyti til. Auðvitað má segja að menn gætu tekið á sig rögg og orðið svo kjarkaðir hér að hafna einfaldlega tillögum af þessu tagi með þeim afleiðingum sem því yrðu samfara og yrði þá sennilega stutt saga Íslands innan samstarfsins eftir það.

En höfundar greinargerðarinnar hafa a.m.k. ekkert verið að mylja þetta með sér ef svo má að orði komast og orða þetta nákvæmlega svona, að það hvíli sú skylda á Íslandi og Noregi að samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum Evrópusambandsins sem breyta þessum samningum. Hvernig eru þær teknar? Jú, þær eru teknar af ráðherraráði Evrópuasambandsins, en þar sitjum við ekki á fundum og þar höfum við ekki atkvæðisrétt eins og kunnugt er.

Herra forseti. Þetta vildi ég draga fram og þetta veldur því að ég hef fyrirvara á. En vegna þess að efni þessa máls er í sjálfu sér jákvætt og þetta er gerður hlutur sem afstaða mín til liggur fyrir, þá ætla ég ekki að leggjast gegn afgreiðslu málsins. En þetta vildi ég segja.

Ég minni síðan á að margt er ekki komið fram enn í sambandi við það hversu skynsamleg sú ákvörðun var að Ísland gerðist aðili að Schengen-samstarfinu. Margur er ógreiddur reikningurinn enn þá, herra forseti, aðgöngumiðinn er nú að reynast ærið dýr eins og ég hygg að ríkisbókhaldið muni bera með sér á þessu ári og hinum næstu.