2001-05-11 10:20:43# 126. lþ. 120.11 fundur 644. mál: #A samningur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að Íslendingum er tryggð með þessum samningum aðild að undirbúningsstarfi og samstarfi sem fer fram innan stofnanahluta og þess kerfis sem sjálft Schengen-samstarfið ber í sér. Og auðvitað reiknar maður með því að yfirleitt komi ekki til breytinga á því nema það sé undirbúið á þeim vettvangi. Það er þó ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Valdið liggur hjá ráðherraráði Evrópusambandsins.

Á þeim vettvangi geta menn væntanlega, ef svo ber undir, tekið þar upp hluti og ákveðið að gera þar breytingar og þá erum við ekki miklir þátttakendur eða aðilar að því ef svo bæri undir að menn t.d. tækju beint upp í ráðherraráðinu atriði sem vörðuðu þetta samstarf og þau yrðu þar til lykta leidd. En auðvitað munum við sjá hvernig það þróast á komandi árum.

Varðandi það að við getum hér neitað eða synjað að staðfesta slíkar ákvarðanir, þá er það að sjálfsögðu fræðilega rétt. Á nákvæmlega sama hátt og það er fræðilega rétt þegar einstakar gerðir sem kalla á afgreiðslu á grundvelli EES-samstarfsins koma til afgreiðslu.

Ég vek hins vegar athygli á því að í vaxandi mæli er umfjöllun um þetta á þeim nótum að það sé eingöngu fræðilegur möguleiki. Meira að segja hæstv. utanrrh. hefur nánast orðað það svo að það sé eingöngu fræðilegur möguleiki og í raun og veru praktískt óhugsandi að menn geri það vegna þess að afleiðingarnar yrðu slíkar.

Ég minni á þá umræðu sem varð hér á landi, og hæstv. utanrrh. ekki síst var aðili að, um þann möguleika að Norðmenn beittu synjunarvaldi gagnvart tilteknum tilskipunum frá Evrópusambandinu um aukaefni í matvælum. Hæstv. utanrrh. Íslendinga talaði þannig um það mál að það væri í raun og veru algerlega fráleitt að Norðmenn létu sér detta það í hug. Í reynd er þetta því eingöngu á pappírnum, bara fræðilegur möguleiki í hugum margra sem um þetta fjalla.