2001-05-11 10:23:44# 126. lþ. 120.11 fundur 644. mál: #A samningur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt og við erum sjálfsagt sammála um að veigamiklir hlutir eru á ferð þegar um er að ræða er allt EES-samstarfið. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að menn velti því upp að menn þurfi að meta og vega saman hagsmuni og velja þá meiri fyrir minni þegar í hlut eiga einhverjar ákvarðanir sem gætu sett allt það samstarf í uppnám eins og sumir hafa viljað vera láta að yrði, að því yrði illa tekið og mönnum yrði hegnt fyrir það almennt í samstarfinu ef þeir gerðust svo sverir að nota þann rétt sinn að synja einhverrar staðfestingar.

En sá er munur á hér að það var ekkert sem knúði Ísland sérstaklega til þess að gerast þátttakandi í Schengen-samstarfinu og það var einangrað mál sem slíkt. Okkur var selt það með því fororði að með því væri norræna vegabréfasambandinu bjargað. En síðan kemur nú í ljós að það verður mikilvægara að hafa með sér vegabréf á öllum ferðum erlendis og þar með talið innan Norðurlandanna en nokkurn tíma fyrr eftir þetta samstarf.

Það sem hér hefði verið miklu heppilegri lausn fyrir Ísland og auðvitað hin Norðurlöndin, ef svo vel hefði tekist til að um það hefði skapast samstaða, var að gera frekar samstarfssamning um þátttöku í þeim hlutum þessa samstarfs sem heppilegt var fyrir öll lönd Evrópu að vera þátttakendur í, t.d. einhverja hluta af upplýsingasamstarfinu með svipuðum hætti og Bretar og Írar hafa valið að gera en losna við það að vera þátttakendur í hinu Evrópusambandsbundna eða innlimaða Schengen-samstarfi sem nú er orðið, m.a. með þeim stjórnskipulegu áhrifum sem aðstæður okkar gagnvart því að fjalla um einstakar ákvarðanir af því tagi sem hér eru á ferðinni og er væntanlega sú fyrsta sem reynir á og er viðbót við Brussel-samningana og er þess vegna í raun og veru prinsipp-afgreiðsla eða tímamótaafgreiðsla við fyrstu breytinguna af þessu tagi sem ráðherraráð Evrópusambandsins ákveður.