Hjúskaparlög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 10:45:48 (7481)

2001-05-11 10:45:48# 126. lþ. 120.18 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv. 65/2001, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. allshn. á þskj. 1175 um frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum, sem snýr m.a. og í meginatriðum að könnun hjónavígsluskilyrða.

Með frv. er lagt til að einungis borgaralegir vígslumenn, þ.e. sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra, annist könnun hjónavígsluskilyrða þegar annað hjónaefna eða bæði eru erlendir ríkisborgarar. Könnun hjónavígsluskilyrða felst í að leysa úr því hvort fullnægt er lagaskilyrðum til að stofna til hjúskapar. Fram kemur í athugasemdum með frv. að töluverð vinna felist oft í athugun á lagaatriðum þegar um er að ræða erlenda ríkisborgara og nokkur þekking á alþjóðlegum einkamálarétti sé þá nauðsynleg. Nefndin telur hins vegar að slík þekking þurfi frekar að vera til staðar þegar annað hjónaefna eða bæði, óháð ríkisfangi þeirra, eiga ekki lögheimili í hér á landi þar sem Hagstofa Íslands geymir nauðsynleg gögn til könnunar hjónavígsluskilyrða.

Herra forseti. Í meginatriðum var það álit nefndarinnar að meginreglan við könnun hjónavígsluskilyrða skyldi vera sú að þegar einstaklingar, hvort sem það eru útlendingar eða Íslendingar, eiga lögheimili hér á landi þá gildi um það sömu reglur, þ.e. að þeir einstaklingar, Íslendingar sem útlendingar, sem eiga ekki lögheimili hér á landi, þurfa að gangast undir þessa könnun sem sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annast.

Þykir nefndinni því rétt að borgaralegir vígslumenn, sem eru löglærðir, annist könnunina þegar annað hjónaefna eða bæði eiga ekki lögheimili á landinu en löggiltir hjónavígslumenn annist hana í öðrum tilvikum.

Mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

,,1. Í stað orðanna ,,eru erlendir ríkisborgarar`` í a-lið 2. gr. komi: eiga ekki lögheimili hér á landi.

2. 4. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. október 2001.``

Einnig vil ég mæla fyrir brtt. á þskj. 1258. Við frekari skoðun nefndarinnar kom í ljós að í rauninni gilda ákveðnar sérreglur um þá námsmenn íslenska sem hefja nám á Norðurlöndunum og í samræmi við Norðurlandasamninginn legg ég til eftirfarandi brtt.:

,,Við 2. gr. Við bætist nýr liður er verði c-liður, svohljóðandi:

c. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er verður 3. málsl., svohljóðandi: Nú eiga ákvæði 9. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990, við um hagi hjónaefnis og telst það þá ekki hafa glatað lögheimili hér á landi þótt það hafi tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu.``