Birting laga og stjórnvaldaerinda

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 10:48:57 (7482)

2001-05-11 10:48:57# 126. lþ. 120.19 fundur 553. mál: #A birting laga og stjórnvaldaerinda# (birting EES-reglna) frv. 63/2001, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:48]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda.

Með frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um hvernig standa skuli að birtingu EES-gerða um leið og skapað er ótvírætt hagræði við innleiðingu þeirra. Lagt er til að ekki þurfi við birtingu stjórnvaldsfyrirmæla í B-deild Stjórnartíðinda, sem sett eru til innleiðingar EES-reglna, að birta þær í öllum tilvikum í heild sinni í B-deildinni heldur nægi að vísa til birtingar þeirra í EES-viðbætinum. Með frumvarpinu er verið að festa í sessi núverandi framkvæmd.

Nefndin telur rétt að ítreka mikilvægi þess að tilvísunin í EES-viðbætinn sé skýr og ótvíræð þannig að ekki verði um villst hvar viðkomandi gerð er að finna. Til að tryggja réttaröryggi almennings þurfi aðgengi að gerðunum því að vera auðvelt. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að EES-viðbætirinn sé nú gefinn út á netinu og að nýlegar kannanir sýni að um 80% landsmanna á aldrinum 16--75 ára hafi aðgang að netinu. Netaðgangur almennings á opinberum stöðum, svo sem á bókasöfnum eða á skrifstofum sýslumanna, er því nauðsynlegur að mati nefndarinnar.

Nefndin telur jafnframt rétt að geta þess að ákvæði sem lúta að birtingu laga og stjórnvaldaerinda geta ekki haft afturvirk áhrif og því teljast EES-gerðir ekki ótvírætt birtar fyrr en eftir samþykkt frumvarpsins.

Við tókum þessa setningu sérstaklega inn í nefndarálitið vegna athugasemda við 3. gr. frv. til að leggja áherslu á það viðhorf nefndarinnar að birting EES-gerða í EES-viðbætinum við stjórnartíðindi EB og eftir atvikum í C-deild Stjórnartíðinda teljist þá ótvírætt fullnægjandi með tilliti til atvika sem gerast eftir gildistöku frv.

Þá vill nefndin ítreka að þörf á heildarendurskoðun laganna hefur ekki minnkað með tilkomu þessa frumvarps.

Í athugasemdum með frumvarpinu greinir að umfang gerðanna sé 5.605 blaðsíður auk 3.753 blaðsíðna viðauka og því ljóst að frumvarpið er til þess fallið að auka skilvirkni við innleiðingu gerðanna og að kostnaður við það mun minnka.

Mælir nefndin með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Kolbrún Halldórsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.