Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 10:53:13 (7485)

2001-05-11 10:53:13# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Eins og alþjóð er kunnugt fóru fram miklar umræður um það á sínum tíma hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að EES-samkomulaginu. Núna að undanförnu hefur verið mikill söngur um það að Íslendingar megi rekja velsæld sína og hagsæld til þessa samkomulags. (ÖS: Rétt, rétt.) Um þetta hef ég meira en litlar efasemdir.

Við vildum mörg fara aðrar leiðir til að tryggja hagsmuni Íslendinga, ná tvíhliða samkomulagi við Evrópusambandið um ýmsa þætti sem við teldum vera til hagsbóta. Það sjónarmið varð hins vegar ekki ofan á.

Eitt af því sem við vöruðum við var valdaafsalið, að Íslendingar mundu þrengja að sér í lýðræðislegum efnum. Ég tel það til góðs að bjóða út verkefni í mjög mörgum tilvikum. Þá er það heppileg leið til þess að ná niður verðlagi og gefa mismunandi fyrirtækjum kost á því að bjóða í verkefni á vegum hins opinbera, sveitarfélaga og ríkis. (Gripið fram í.) Ég er að tala um útboð á opinberum framkvæmdum, en eins og við vitum er skylt samkvæmt EES-samkomulaginu að bjóða verkefni sem fara yfir tiltekna fjárhæð út á gjörvöllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í mörgum tilfellum er þetta ágætt. En mér finnst mikilvægt að bæði sveitarfélög og ríki taki ákvörðun í hverju tilviki um þá leið sem talin er heppilegust.

Nú er það svo með smíði eða samsetningu á varðskipi að Íslendingar vildu styrkja skipasmíðaiðnað á Íslandi og láta þessa framkvæmd fara þar fram. Menn vildu beina þessari framkvæmd til Akureyrar. En nú var úr vöndu að ráða. Menn höfðu skuldbundið sig samkvæmt margrómuðu EES-samkomulagi til að bjóða verkið út á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þá lögðust menn í miklar pælingar um það hvernig væri hægt að koma sér hjá þessum skuldbindingum, hvernig væri hægt að fara á bak við skuldbindingarnar. Til voru kallaðir sérfræðingar úr ráðuneytum og nefndir. Allshn. Alþingis lagðist yfir það hvort unnt væri að breyta lögum sem styrkti stöðu okkar í þessu efni. Það varð að lokum ofan á. Í lög var sett eftirfarandi klásúla, með leyfi forseta:

,,Við smíði varðskips er eigi skylt að láta fara fram útboð og er heimilt að leita tilboða frá einum eða fleiri aðilum. Sama gildir um viðhald varðskips þegar sérstakir öryggishagsmunir krefjast.``

Þannig hljómaði klásúlan sem var sett í lög.

En að sjálfsögðu var fundið að þessu. Útsendarar hins Evrópska efnahagssvæðis komu strax á vettvang, vöruðu allshn. við þessu og sögðu að þetta stæðist ekki hinn Evrópska efnahagssamning. Menn vitnuðu þá til Danmerkur og sögðu að þar hefðu menn komist upp með að láta smíði herskipa fara fram á þeirri forsendu að um hernaðarleyndarmál væri að ræða. Þá var lagst yfir þetta. Varðskip, eru ekki einhver hernaðarleyndarmál þar á ferðinni? Klippurnar, jú. Klippurnar gætu verið hernaðarleyndarmál sem réttlættu það að við færum með þetta verkefni til Íslands og til Akureyrar. Á þessum forsendum var þetta rætt, hvernig sem sagt menn gætu komið sér hjá því að standa við þær skuldbindingar sem þeir höfðu gefið.

Ég var hins vegar því fylgjandi allan tímann að smíðin færi fram á Íslandi og þess vegna á Akureyri, að þetta verkefni færi til Íslands og til þess að styrkja skipasmíðar á Íslandi. Ég var allan tímann fylgjandi því. Einmitt þetta skýrir afstöðu okkar á sínum tíma til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Við vildum ekki binda hendur okkar. Jafnvel þótt við værum fylgjandi því að fara útboðsleið í mörgum ef ekki flestum tilvikum af þessu tagi þá vildum við ekki skerða lýðræðislegt forræði okkar í málum af þessu tagi. Út á það gekk málið. Mér finnst alltaf hálflítilmannlegt að þegar gerðir eru samningar sem henta ekki þá reyni menn að skjóta sér á hjá því að standa við gerðan samning. Mér finnst þetta óskaplega vesælt. En því miður er það að koma fram í hverju málinu á fætur öðru hvernig þetta samkomulag hefur þrengt að okkur. Mér finnast hlægilegar þessar umræður sem fram hafa farið að undanförnu í fjölmiðlum, einhver upphafning á þessu samkomulagi þar sem menn eru að rekja þá hagsæld sem hér hefur skapast á undanförnum árum vegna mikils metafla og hagstæðra skilyrða á mörkuðum erlendis, jafnvel menn sem kenna sig við jafnaðarmennsku, til markaðsvæðingar samfélagsins og þeirrar nauðungar sem þetta samkomulag hefur lagt á íslenskt þjóðfélag. Þetta er hlægilegur málflutningur og á ekki við nokkur einustu rök að styðjast. Hagsæld Íslendinga má rekja til mikilla aflabragða, til mjög hagstæðra skilyrða á mörkuðum erlendis. En því miður er það nú að koma í ljós sem við mörg höfum varað lengi við að innstæðan á bak við þessa velsæld er ekki eins traust og maður vildi óska. Hún byggir á þenslu og mikilli lántöku sem er því miður ástæða til að óttast að ekki sé innstæða fyrir.

Ég ítreka það sjónarmið mitt að ég er því eindregið fylgjandi að styrkja innlendan skipaiðnað. Ég er því eindregið fylgjandi og hef alla tíð verið að smíði og samsetning þessa varðskips fari fram á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að styðja þessa atvinnugrein og efla hana. En ég vildi bara vekja athygli á þeim hráskinnaleik sem á sér stað og birtist með átakanlegum hætti í þessari frumvarpsmynd.