Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:01:18 (7486)

2001-05-11 11:01:18# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þá hagsæld sem hefur ríkt hér á síðustu árum sé ekki hægt að rekja til aðgerða núv. ríkisstjórnar. Það er líka rétt hjá hv. þm. að þenslan sem hefur komið upp í hagkerfinu er núna komin á þau mörk að menn tala hér um lendingar af ýmsu tagi. Það er líka rétt hjá honum að þetta hefur m.a. leitt til þess að menn þurfa að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana í efnahagslífinu eins og að vaða í stóriðju á ýmsum landshornum, fyrst og fremst á þeim röksemdum að það þurfi að gera til þess að bjarga efnahagslífinu. Ég tek undir með honum að það er ansi stökkt nú um stundir.

Það er líka rétt hjá hv. þm. að aflabrögð og góð staða á mörkuðum á stóran þátt í því hvernig tókst til hér að ná upp góðæri sem núv. ríkisstjórn hefur glutrað niður. En af hverju var staðan svona góð á mörkuðum? Af hverju höfum við getað nýtt okkur markaðina eins og við höfum gert á síðustu árum? Hvar hafa vaxtarbroddarnir verið?

Þeir hafa í sjávarútveginum á fiskmörkuðum erlendis fyrst og fremst verið í krafti þeirra tollaniðurfellinga sem náðust með EES-samningnum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Ég er þeirrar skoðunar að hv. þm. hafi gersamlega rangt fyrir sér um það að EES-samningurinn hafi ekki leitt til aukinnar velsældar. Hitt er annað mál að hv. þm. hefur fyllsta rétt til þess að vera þessarar skoðunar. En hann verður þá að etja rökum sínum saman við þá sem hafa teflt á hann staðreyndum. Hverjir eru þeir? Það eru nú ekki bara þeir jafnaðarmenn sem hann nefndi hérna. Ég gæti t.d. bent honum á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem ég veit að hv. þm. þekkir vel, og líka nýlega skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Þar kemur fram að grundvöllurinn að núverandi hagsæld í landinu var EES-samningurinn. Ef hv. þm. er annarrar skoðunar þá finnst mér að hann hafi fyllsta rétt til þess að hafa þá skoðun en hann verður að tefla rökum gegn þeim staðreyndum sem þar koma fram. Það hefur hann ekki gert.