Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:10:26 (7490)

2001-05-11 11:10:26# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:10]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mig langar fyrst að nefna það að ég tek eftir því í nefndarálitinu að nefndin hefur fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmrn. og fengið umsagnir frá Landhelgisgæslu Íslands, Ríkiskaupum og Lögmannafélagi Íslands. Nefndin hefur ekki talið ástæðu til þess að ræða við t.d. forráðamenn skipaiðnaðarins í landinu í þessu samhengi. Ég bara vonast til þess að það hafi þá verið vegna þess að menn hafi hugsað sér að skoða málið frekar síðar, þ.e. hvernig væri hægt að taka á málum hvað varðar skipasmíðarnar hér.

Það er því miður orðið of seint að koma í veg fyrir að vandræði muni ríða yfir þá grein. Eftir að menn tóku á málum hér á árið 1993 eða þar um bil --- menn muna kannski að skipasmíðastöðvar í landinu fóru nánast allar á höfuðið og voru endurreistar --- þá hefur farið í sama farið og þessi iðnaður er allur á fallanda fæti hér á landi. Ég veit ekki til þess að eitt né neitt sé verið að gera til þess að reisa hann við.

Þegar það er hins vegar rætt hvaða áhrif EES-samningurinn hefur á skipasmíðarnar þá er það kannski umhugsunarefni einmitt með tilliti til þess hvernig fór í sumar þegar viðhald og endurbætur á varðskipunum voru boðnar út. Menn eru að tala hér um EES-samninginn. En hverjir voru það sem fóru með sigur af hólmi í því að fá þessi verkefni? Það var ekki EES-land. Það voru Pólverjar. Ég veit ekki til þess að þeir séu aðilar að EES-samningnum. Ég spyr: Hvernig stendur á því að EES-samningurinn er allt í einu orðinn vopn í höndum þeirra sem eru utan EES-svæðisins? Ég segi þess vegna að menn hljóta að þurfa að fara yfir málin hér. Á það að vera þannig að þær reglur sem við semjum um við EES-ríkin verði vopn í höndunum á Kínverjum, Pólverjum eða þess vegna hverjum sem er? Mér finnst það ekki. Ég held að menn þurfi að fara vandlega yfir það hvort þarna hafi verið staðið rétt að málum, fyrir nú utan það að í því máli brugðust íslensk stjórnvöld. Þeir reikningar sem ég hef séð um það hverjir voru raunverulega lægstir í þessu tilboði voru það vafasamir og það valt á það smáum upphæðum að það mátti fullkomlega halda því fram að íslensku tilboðin væru betri. En það var nú samt niðurstaða stjórnvalda að taka pólsku tilboðunum.

[11:15]

Og því miður hef ég fengið þá skýringu helsta, með því að leita eftir skýringu á þessum málum hjá mönnum sem til þekkja, að ástæðurnar fyrir því geti verið ýmsar, m.a. þær að hið launahvetjandi dagprísakerfi sem opinberir starfsmenn hafa ef þeir ferðast á vegum þeirra stofnana sem þeir vinna hjá, geti haft áhrif á hvaða tilboðum er tekið. Einn þeirra sem ég talaði við um þetta mál hélt því fram að á sínum tíma þegar deilur stóðu um það hvort gera ætti við varðskip norður á Akureyri eða suður í Hafnarfirði hafi niðurstaðan orðið sú að fara með varðskipið til Akureyrar vegna þess að starfsmenn Landhelgisgæslunnar og eftirlitsaðilarnir, sem höfðu sannarlega áhrif á niðurstöðuna, hefðu fengið dagpeninga fyrir norðan en ekki í Hafnarfirði. Og þannig hagaði líka til í því tilfelli þegar verið var að velja á milli pólska og íslenska tilboðsins að þeir hefðu ekki fengið dagpeninga í Hafnarfirðinum. Ég ætla nú ekki að taka ábyrgð á að rétt sé að þetta hafi verið ástæðan fyrir þessu. Hins vegar hljóp þetta á það smáum upphæðum, og ýmsir aðilar lögðu hér fram útreikninga sem voru íslensku tilboðunum í hag, að ég taldi afar vafasamt að taka pólska tilboðinu, fyrir utan þetta stóra spurningarmerki: Hvernig er það eiginlega, þurfum við að láta samninga okkar um EES-samninginn valda því að við missum góð verkefni úr landi til einhverra allt annarra þjóða en eiga aðild að þeim samningi? Ég vildi koma þessu á framfæri á hv. Alþingi vegna þess sem hér er að gerast. Menn eru að gefast upp. Ég er svo sem ekkert að segja að það sé einhver önnur leið fær en að gefast upp með þessa leið sem þarna var meiningin að fara, a.m.k. er greinilegt að það er ekki einu sinni smuga í málinu fyrir Íslendinga samkvæmt því frv. sem hér er lagt fyrir, með leyfi forseta:

,,Eftir nánari athugun og viðræður hefur orðið að samkomulagi að leggja til að umrædd breyting verði felld brott ...

Það er gjörsamlega horfið frá þessum fyrirætlunum um að undanskilja þessi verkefni og hér eru ekki send nein skilaboð inn í hv. Alþingi um það hvort einhver önnur ráð séu til skoðunar og hvort það eigi virkilega að fara þannig í þessu tilfelli líka, að ef Pólverjar eða Kínverjar verði með betra tilboð þá muni EES-samningurinn verða notaður til að lemja okkur til þess að semja við þá þó að við hefðum sjálfir næstlægsta tilboðið. Það fyndist mér illa farið.