Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:50:01 (7502)

2001-05-11 11:50:01# 126. lþ. 120.22 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:50]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég tek undir orð annarra hv. þm. um ágæti þessarar þáltill. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga á Íslandi. Það er eðlilegt að þessi tillaga komi fram vegna þess að það hefur verið mikil umræða um hag barna og um að þau eigi oft undir högg að sækja. Rætt hefur verið um einmanaleika hjá börnum og að þau hafi ekki nógu mikil samskipti við foreldra sína, að tengsl foreldra og barna séu ekki nógu góð vegna þess að foreldrarnir vinni mikið og þurfi að leggja mikið á sig til að halda heimili.

Það er líka ágætt að hafa í huga, þegar kemur að því að undirbúa og vinna málið, að menn séu samstiga og að ekki verði komið á fót mörgum stofnunum eða batteríum, ef svo má að orði komast, sem vinna eigi að málefnum barna. Ef við tökum t.d. börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða andlega erfiðleika sem farið er með til sálfræðings og annarra sérfræðinga þá er hætta á að of margir komi að málinu. Fyrst er farið með barnið til sálfræðings, þá til geðlæknis og svo til annarra aðila og það þarf að fara á milli margra stofnana. Að þessu þarf að huga í sambandi við þessi mál, að málið verði ekki þvælt of mikið, taki of langan tíma og svo margir komi að því að úr verði ein stór þvæla.

Það er nauðsynlegt að hafa ákveðna og markvissa stefnu í málefnum barna, að fólk sé meðvitað og kunnugt stefnunni í uppeldismálum á Íslandi. Hvaða stefnu viljum við hafa í sambandi við aðgengi barna að alls konar tölvuleikjum, sjónvarpsefni, kvikmyndum og annarri afþreyingu sem getur verið varasöm? Þetta ber einnig að hafa í huga.

Þetta er gott mál og ágætt að í greinargerðinni er talað um stöðu útivinnandi foreldra veikra barna, hvað þau hafa lítinn tíma og frí frá vinnu vegna veikinda barna sinna. Ég vona einnig að mikið tillit verði tekið til þess í allri þessari umræðu. Veikum börnum er nauðsynlegt að hafa foreldra sína nálægt sér.