Virðisaukaskattur

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 12:07:01 (7510)

2001-05-11 12:07:01# 126. lþ. 120.27 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv. 57/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það mál sem hér er flutt er vissulega til bóta og mun gagnast mjög til að endurnýja hópferðabifreiðaflota landsmanna en það er heimilt samkvæmt þessu frv. að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 13/1999, um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða tímabilið 1. sept. 2000 til 31. des. 2003.

Ég held að þetta mál sé mjög gott og muni styrkja það að við endurnýjum hópferðabifreiðaflotann sem er ekki síst til þess að tryggja öryggi farþega. Ég hefði viljað sjá í þessu að nefndin hefði einnig skoðað að heimildin tæki til almenningsvagna en það er ekki gert því að í 1. gr. frv. er kveðið á um það að heimildin taki ekki til almenningsvagna.

Athugasemd kom frá Félagi hópferðaleyfishafa um að stjórn félagsins sjái einn veigamikinn annmarka og hann sé sá að endurgreiðslan skuli miðast við 1. sept. 2000 og hvöttu þeir til þess að miða við 1. janúar hvort heldur er árið 2000 eða árið 2001. Árið 2000 er að sjálfsögðu betra fyrir þá rekstraraðila sem hafa verið að endurnýja hópferðabíla sína og sjá nú fram á verulega lækkun á þessum sömu bílum. Síðan segir að veruleg óánægja sé hjá þessum aðilum innan Félags hópferðaleyfishafa ef miðað verði við 1. september og telur stjórn félagsins eðlilegast að jafnþýðingarmikið mál taki gildi frá og með áramótum.

Satt að segja, herra forseti, stóð ég í þeirri meiningu að efh.- og viðskn. hefði tekið upp þessa brtt. og það hefði átt að miða þetta við 1. jan. 2000 í staðinn fyrir 1. sept. 2000 eins og er í frv. sjálfu. Það átti að kanna hvort um væri að ræða marga aðila sem hefðu endurnýjað hópferðabíla á þessu tímabili. Ég fékk aldrei neinar fregnir af því og ég spyr hv. formann nefndarinnar um ástæður fyrir því að þessi breyting kom ekki fram, vegna þess að þegar við skildum við málið í efh.- og viðskn. taldi ég að brtt. kæmi þar sem gildistaka þessa ákvæðis mundi miðast við 1. jan. 2000. Ég vil gjarnan fá skýringu á því og mun þá auðvitað hugsa um það við 3. umr. hvort ástæða sé til að flytja brtt. í þessa veru vegna þess að ég tel eðlilegt að skoða það ef ekki eru þeim mun fleiri bifreiðir sem hér er um að ræða.