Virðisaukaskattur

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 12:11:10 (7512)

2001-05-11 12:11:10# 126. lþ. 120.27 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv. 57/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú talið í ljósi þeirrar niðurstöðu sem varð í viðræðum formanns og fjmrn. um þetta mál að formaðurinn hefði átt að kynna efh.- og viðskn. þá niðurstöðu vegna þess að við stöndum í þeirri meiningu þegar málið er afgreitt úr nefnd að þessari dagsetningu verði breytt úr 1. sept. 2000 í 1. jan. árið 2000.

Ég vil spyrja hv. formann um skýringu á því. Hv. formaður segir að þetta sé meðvituð ákvörðun hjá fjmrn. en hver er skýringin á því? Við kölluðum eftir því að fá upplýsingar um hvort um margar hópferðabifreiðar væri að ræða á þessu tímabili vegna þess að við þurfum auðvitað að skoða það út frá jafnræðissjónarmiði líka. Ég geri mér grein fyrir því að einhvers staðar þarf að byrja, en mér fannst þau sjónarmið sem Félag hópferðaleyfishafa setur fram það góð og gild að ástæða væri til að taka það fyllilega til athugunar að flytja brtt.

Ég spyr: Er ástæðan sú að hér sé um svo marga aðila að ræða? Hver er ástæðan? Og ég áskil mér þá allan rétt fyrst málið er svo komið að flytja brtt. við málið og bið um, eftir að ég hef fengið skýringu formanns nefndarinnar á þessari afstöðu, að málinu verði ekki lokað þannig að mér gefist svigrúm til að flytja brtt. núna við 2. umr. málsins.