Virðisaukaskattur

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 12:16:32 (7515)

2001-05-11 12:16:32# 126. lþ. 120.27 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv. 57/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[12:16]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kemur í greinargerð og þau orð sem hér hafa fallið í umræðunni, að hópferðabifreiðafloti landsmanna er orðinn býsna gamall. Endurnýjun á þeim bifreiðum er ekki næg. Það skiptir miklu máli að hópferðabifreiðar hér á landi séu samkeppnishæfar. Hópferðaleyfishafar, þeir sem hafa boðið upp á hópferðir og fólksflutninga, víða um land eru ekki of sælir sem stendur. Skipulagðir fólksflutningar á bílum eiga undir högg að sækja.

Ég held að mikilvægt væri að þær breytingar sem hér eru lagðar til, að lækka gjöld á innflutningi til endurnýjunar á þessum flota, gætu komið til framkvæmda sem fyrst. Breytingarnar gætu styrkt greinina. Ég tek undir óskir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að þetta verði endurskoðað og frekari rök færð fyrir flutningi gildistöku frv. aftur fyrir aðalvertíð þessarar atvinnugreinar. Við þurfum að vita hvað er í húfi, hversu marga eigendur þetta snertir o.s.frv.?

Enn fremur er þetta bundið við bifreiðir sem skráðar eru 18 manna. Ég vil spyrja hvort einhverjir lendi þarna á milli, 9 og 18 manna bifreiðir sem séu í vandræðum. Við höfum upp undir níu manna leigubíla að mig minnir. Til eru fólksflutningabílar þarna á milli. Þeir eru einmitt mikið notaðir í ferðaþjónustu hjá minni fyrirtækjum. Einstaklingar og lítil fyrirtæki með sérhæfða ferðaþjónustu notast oft við bíla af þessari stærð. Ég vil aðeins forvitnast um hver sé staða þeirra bíla sem þarna lenda á milli.