Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 13:34:24 (7522)

2001-05-11 13:34:24# 126. lþ. 120.1 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SvH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þá fyrst að uppi voru áform um að breyta bönkunum í hlutafélög var skýrt tekið fram sem stefnuskráratriði að þeir skyldu seldir dreifðri sölu þannig að eignaraðildin yrði dreifð og enginn réði meiru en um 2--3%. Frá þessu hefur alveg verið horfið eins og sjá má af þeim skjölum sem hér liggja fyrir til afgreiðslu.

Einnig var gefin yfirlýsing um að samráð yrði haft við starfsfólk. Það er undirstöðuatriði þegar svo róttæk breyting fer fram á fyrirtækjunum sem raun ber vitni. Við þetta hefur ekki verið staðið.

Einnig eru uppi áform um að hverfa frá þeirri stefnu að seld verði hlutabréf í þessum félögum við hæsta mögulegu verði. Kaupandinn er látinn sitja í fyrirrúmi eins og sjá mátti á yfirlýsingu samgrh. er hann flutti mál sitt varðandi Landssímann. Þeir sem þannig ætla að standa að verki geta ekki fengið umboð til þess frá þeim sem hér stendur og mun hann greiða atkvæði gegn þessu frv., enda þótt hann hafi marglýst því yfir að hann sé fylgjandi einkavæðingu bankanna í sjálfu sér.