Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:34:36 (7535)

2001-05-11 14:34:36# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað má gagnrýna uppsetningu þessa frv. eins og kannski allra annarra frv. en frv. dregur auðvitað dám af því hvernig tollalögin og viðaukinn við þau eru sett upp. Í sjálfu sér má segja að hvorki frv. né tollalögin séu að þessu leyti til neinn sérstakur barnaleikur við að fást, ég skal viðurkenna það. Hins vegar held ég að ef menn rýna í þetta þá sjái þeir hvað þarna hangir á spýtunni. Verið er að fjölga þeim tegundum sem eru taldar upp í þeim viðauka þar sem eru heildartollkvótar í tonnum taldir og þeir eru rúmir eins og ég sagði áðan. Síðan er í 1. gr. verið að auka svigrúm viðkomandi ráðherra til að breyta verð- og magntollum án þess að þeir þurfi alltaf að fylgjast að eins og nú er.

Hins vegar að því er varðar síðara atriðið í andsvari hv. þm. þá er hér hreyft spurningu sem var mikið rædd á sínum tíma þegar ákveðið var að fara þessa leið. Auðvitað er óvenjulegt að í lögum sem heyra undir einn tiltekinn ráðherra skuli öðrum ráðherra vera falin framkvæmdin. Það er vissulega óvenjulegt. Það varð hins vegar niðurstaða manna í ríkisstjórn á árunum 1991--1995 að þetta væri eðlilegt með tilliti til þess hvers eðlis þetta mál væri og með tilliti til þess að hér er jafnframt verið að svara og fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum um viðskipti með landbúnaðarafurðir innan vébanda GATT-samkomulagsins. Þó að hér sé óvenjuleg verkaskipting og kannski ekki hefðbundin þá er ekki fyrirhugað að gera neinar breytingar á henni, a.m.k. ekki á næstunni. Það yrði þá alveg sjálfstætt mál og ótengt þeirri breytingu sem verið er að leggja til efnislega í þessu frv.