Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:42:12 (7539)

2001-05-11 14:42:12# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft grundvallaratriði af hálfu hv. þm. Mörg hver munum við þegar stjórnarskránni var breytt árið 1995 og þrengt að valdi ráðherra til að breyta skattlagningu eða sköttum án þess að Alþingi kæmi þar beint að. Við höfum lauslega látið líta á þennan þátt í undirbúningi málsins vegna þess að auðvitað er mikilvægt að þessi ákvæði standist þetta stjórnarskrárákvæði. Fljótt á litið bendir allt til þess að þetta standist vegna þess að hér eru ekki opnar og rúmar heimildir heldur er hér um að ræða mjög þröngt svigrúm sem Alþingi ákvarðar hvert sé á ákveðnum tímum og á ákveðnum vörutegundum og í ákveðnum mæli. Ég mundi því ekki vera að mæla fyrir þessu frv. ef ég, sem beitti mér nú fyrir þessum stjórnarskrárákvæðum á sínum tíma, teldi ekki að þetta stæðist. En auðvitað er alveg sjálfsagt að ganga vel og rækilega úr skugga um þetta atriði áður en frv. verður afgreitt frá Alþingi því ekki viljum við verða ber að því að (SJS: Hvort væri það landbrh. eða fjmrh. sem bryti stjórnarskrána?) fara ekki að þessum merku ákvæðum (ÖJ: Báðir?) sem hv. þm. gerir hér að umtalsefni. En ég legg til að þingmenn Vinstri grænna, sem eru að hafa þetta mál í flimtingum, fletti líka upp í lögbókum og kanni þetta sér og sérstaklega með ráðgjöfum sínum hvað hér er á ferðinni, sérstaklega hv. formaður BSRB sem hér stendur og er að grípa fram í að vanda og venju sinni samkvæmt. (Gripið fram í.) Hann ætti að skoða það með hagsmuni umbjóðenda sinna fyrir augum til þess að þetta mál geti náð fram að ganga, svo nauðsynlegt sem það er í stöðunni.