Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:44:19 (7540)

2001-05-11 14:44:19# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir það sem hann sagði um að þetta hafi verið skoðað og að menn séu að skoða þetta. Hins vegar hlýt ég að gera athugasemd við það að hæstv. landbrh., sem eins og aðrir hæstv. fagráðherrar hefur litið á það sem hlutverk sitt að gæta fags síns, þ.e. hæstv. landbrh. gætir hagsmuna landbúnaðarins, eigi að ákvarða um tollvernd til handa landbúnaðinum og jafnvel til handa nýjum greinum. Ég hef stundum sagt að ég þakka fyrir meðan einhverjum bónda dettur ekki í huga að rækta banana því þá gæti ég ekki lengur keypt banana því þeir mundu kosta 5.000 kr. kílóið.