Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:26:59 (7548)

2001-05-11 15:26:59# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt og ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er auðvitað með ólíkindum að þetta orkuríka land sem Ísland er og með þá miklu möguleika til að framleiða ódýra orku skuli þurfa að okra á atvinnugrein af þessu tagi en þar er garðyrkjan náttúrlega á sama báti og annar almennur iðnaður sem borgar hér fáránlega hátt raforkuverð borið saman við það sem ætti að þurfa. Ef við tökum framleiðslukostnað á fullafskrifuðum vatnsaflsvirkjunum eins og Soginu eða Laxárvirkjun eða öðrum slíkum, þá blasir það gjörsamlega við að slíkum kaupendum ætti að vera hægt að afhenda þessa orku á margfalt lægra verði og ástæðan fyrir því að það er ekki gert er ósköp einföld, að þó að innlendi notendamarkaðurinn kaupi verulegan minni hluta raforkunnar borgar hann 2/3 af verðinu sem Landsvirkjun fær fyrir hana. Þannig eru bara einfaldlega hlutföllin. Erlenda stóriðjan, þessi fína sem menn vilja endilega auka, hirðir mikinn meiri hluta orkunnar en borgar verulegan minni hluta teknanna. Þannig liggur það fyrir.

Fjarlægðarverndin er vissulega til staðar en ég óttast þó að hún standi lítið fyrir a.m.k. erlendri samkeppni á þeim tíma ársins þegar verðin taka mesta dýfu á markaði í Evrópu. Menn verða náttúrlega að hafa í huga hversu gríðarlega ólíku er saman að jafna, þeim stærðarhlutföllum og aðstæðum öllum sem þar eru í gríðarlegri magnframleiðslu með öflug dreifikerfi o.s.frv.

Ég held að það sem ætti að skoða sérstaklega í þessu, ef ég læt það eftir mér að segja eitthvað um það, væri hvernig mögulega mætti beita tollverndinni eða tollákvörðunum á axlartímabilunum þar sem innlenda og erlenda framleiðslan skarast en taka síðan þá tolla niður eða jafnvel út á þeim tíma ársins þar sem engri innlendri framleiðslu væri til að dreifa. Þar með gætu menn þó að það þýddi að vísu dálitlar verðsveiflur innan ársins í heildina tekið og að meðaltali náð árangri í að lækka verð án þess að innlenda framleiðslan væri sett í þá aðstöðu að eiga ekki möguleika gagnvart innflutningi.