Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:47:36 (7555)

2001-05-11 15:47:36# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ekki tekið það upp í sína málefnaskrá að það eigi að greiða íslenskum garðyrkjubændum beina framleiðslustyrki og það er einfaldlega vegna þess að í dag búa þeir við verndartolla sem hafa varið þá gegn óhóflegum innflutningi á vöru sem væri þá undir markaðsverði.

Hitt er aftur annað mál að ef þessir verndartollar verða teknir af þá verður einhvern veginn að styðja bændur svo þeir geti verið samkeppnishæfir. Erlendir bændur eru studdir á ýmsan hátt og við verðum að gera það sama hér. Beinir framleiðslustyrkir eða ekki, það verður bara að skoða. En þeir verða að fá einhvern annan stuðning ef verndartollana á að afnema.

Það óhóflega verð sem við íslenskir neytendur höfum greitt fyrir grænmeti og ávexti hefur ekki runnið í vasa bænda, íslenskra framleiðenda. Það hefur runnið til annarra, heildsalanna og smásalanna en ekki til bændastéttarinnar. Á því þarf að taka með öðrum hætti.