Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:49:05 (7556)

2001-05-11 15:49:05# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hversu málefnalega þessi umræða fer af stað og hversu vel menn í rauninni taka þessu frv. og því markmiði sem því fylgir. Maður finnur samt sem áður að menn gera á annan veginn lítið úr því og þá hugsar maður til þess að þeir eru fáir vinir ríkissjóðs. Auðvitað er það svo að annan daginn skammast stjórnarandstaðan yfir því að allt sé að fara yfir um á klárnum, verðbólgan að vaxa og hæstv. fjmrh. standi sig ekki nógu vel. En þarna eru þó 100 millj. sem ríkið er að gefa eftir í tollum, spái ég, 70--100 millj. á einum 30 tegundum þannig að hér er verið að tala um heilmikla upphæð, við skulum segja 70--100 millj.

Hins vegar hafa aðrir viljað ganga lengra. Hér hafa komið fram ýmsar spurningar og menn velta framtíð garðyrkjunnar fyrir sér í þessari umræðu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var fyrstur með sína ræðu og spurði hvað væri verið að lækka. Eins og ég sagði einhvers staðar þá er þetta flóknara mál en menn ætluðu. Það þurfti lagabreytingar til til þess að ná þessu fram. Þetta er skorðað í lögum og framkvæmdin öll. Og ég vil segja hér þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræðst hart að landbrn. og landbrh. og telur að menn hafi haft þetta í hendi sér, þá hygg ég að það hafi verið svo í minni tíð og ég hygg að það hafi verið svo í tíð fyrirrennara míns að ekkert í þessu hefur verið gert út í loftið og að öllum ákvörðunum hefur komið lögbundin ráðgjafarnefnd sem hefur verið til leiðbeiningar um hvað skuli gera. Hún er skipuð fulltrúa úr landbrn., fulltrúa úr fjmrn. og fulltrúa úr viðskrn. þannig að þessir aðilar hafa komið að þessu máli öll þau ár, verið landbrh. til ráðgjafar og eftir þeim ákvörðunum hefur verið farið. Hv. þm. hélt því fram í einhverri umræðu að þessi nefnd hefði verið slegin af en hún er lögum samkvæmt starfandi, er mjög mikilvæg og hefur unnið sitt starf vel.

Hv. þm. spurði mig að því hvað liði þeirri fyrirspurn sem ég hef lagt fyrir Samkeppnisstofnun og ég verð auðvitað að segja að ég harma það að í hita leiksins líklega þarna þegar þetta skellur á, í byrjun apríl, þá skrifaði ég bréf sem frægt var, til þess að biðja um að tekið yrði út hvað væri hvers, hvað bóndinn væri að fá af paprikunni í sinn hlut, hvað heildsalinn væri að fá, hvað smásalinn væri að fá, hvað ríkið væri að taka og að greina þetta auðvitað allt saman. Ég hef ekki enn fengið svar frá Samkeppnisstofnun við þessu litla bréfi. Ég auðvitað vonast eftir því á degi hverjum og tel mjög mikilvægt að fá það.

Ég hafna því að landbrn., eins og hv. þm. fullyrðir, hafi staðið fyrir hálfgerðu samsæri og í skjóli þess hafi aðilar getað hagað sér eins og þeir gerðu. (ÖS: Samkeppnisráð segir það.) Já. Samkeppnisráð ýjar að því og segir það. En það þarf ekki allt að vera rétt sem þeir segja. Það kann líka að vera að einhverjir hafi sofnað á verðinum. Hverjir fara með verðlagseftirlit í landinu? Hverjir fara með það? Sofnuðu þeir á verðinum? Hvar voru Neytendasamtökin þennan tíma? Af hverju þarf Morgunblaðið að taka að sér verðlagseftirlit á Íslandi? Það kemst að raun um það, eins og ég rakti hér áðan, að það hefur ekki bara verið ofurálagning á grænmeti til neytandans heldur á alls konar ávöxtum upp í 300--400% stundum, jarðarberjum og fleiri tegundum. Af hverju hefur þetta verið? Ég spyr. Það eru einhverjir lögbundnir aðilar sem eiga að fylgjast með því að menn geri rétta hluti. Ég hafna því að það hafi verið í skjóli þessara tolla sem hafa verið nokkuð skýrir og síðan meira að segja markaðir þannig að þeir falla af á þessum vörum sem við framleiðum, stóran hluta af árinu, frá 1. nóvember til 15. mars eins og frægt er. Auðvitað er það svo að í EES-samningunum var sú ákvörðun tekin að gefa hér eftir tolla á grænmeti, taka landbúnaðarvörur inn í það í staðinn fyrir fisk. Það gerðist í tíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að þetta varð niðurstaðan.

Ég tel að farið hafi verið eftir heimildum laganna og það sé mjög mikilvægt að við séum að ganga þá leið að breyta lögum í dag eða ræða það hér og gerum það á næstu dögum. Eftir þessa lagabreytingu verður unnt að gera ýmsar breytingar sem felast í þessu frv. sem gerir þetta bæði sveigjanlegra og fellir niður tolla af einum 30 tegundum. Þær eru auðvitað margar, laukar og káltegundir, jöklasalat, kúrbítur, jarðartískotta og fleira og fleira er í þeim pakka. Svo verður sveigjanlegra kerfi á öðrum sviðum þannig að hér eru menn að reyna að búa sér til nýtt og öðruvísi stjórnkerfi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að hér væri að fæðast lítil mús. En þó er þetta skref í rétta átt viðurkenna allir og ég giska á að þetta geti verið 70--100 millj. Á það er giskað. En málið er bara flóknara. Mér þykir vænt um þau störf sem hér eru unnin í landinu á þessu sviði og íslenska garðyrkju og veit að neytandanum þykir það líka þannig að við verðum að fara varlega. Þetta er ekkert einfalt mál. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir. Alþjóðasamningar eru dálítið flóknir og okkur leyfist ekki hvað sem er í stuðningi því að við höfum undirskrifað GATT og við erum á ferð í WTO-samningum og beinn stuðningur getur verið flókinn. Við vitum að evrópskur landbúnaður er mjög styrktur, enda fara yfir 50% af fjárlögum Evrópusambandsins í að styrkja og niðurgreiða landbúnaðarafurðir. En við erum þarna komin inn í ferli sem varð til í kringum þessa samninga og getum ekki vikist undan því. Við höfum ekki verið kærðir og erum taldir framfylgja þeim eins og við gerðum þá þannig að þar erum við í góðum málum. En við verðum að vanda okkur í framhaldinu og gera ekki neitt rangt.

Ég skipaði þessa ágætu grænmetisnefnd. Ég gerði það ekkert út í loftið. Þar komu menn að frá Bændasamtökunum og garðyrkjubændum, atvinnulífinu. Ég taldi mjög mikilvægt að frá fjöldahreyfingum verkalýðsins eins og BSRB og ASÍ kæmu fulltrúar. Þeir komu þar að af heilum hug og það sögðu foringjar þeirra hreyfinga að þeir litu á það sem mikilvægt verkefni að lækka verð á grænmeti en um leið að reyna að styrkja og efla íslenska garðyrkju. Þeir skiluðu mér áfangatillögum og ég vil lýsa því hér yfir að ég hef rætt það í ríkisstjórn og við þá aðila sem ég skipaði þessa nefnd, að þeir starfi áfram.

Ef ég fer yfir áfangatillögurnar þá voru þær í nokkrum köflum.

1. Tollar á afurðir innan VII. kafla tollskrár sem ekki eru framleiddir hér á landi verði felldir niður, jafnframt að heimilt verði að leyfa fjórðungslækkanir á verðtolli og magntolli, hvorum fyrir sig. Ráðgjafarnefnd sem starfar samkvæmt 75. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum verði falið að fjalla um og meta þá breytingu er af kann að hljótast samanber ákvæði áðurnefndrar lagagreinar. Í því sambandi verði nefndinni falið að gera drög að lagafrv. í samræmmi við tillögugerðina.

2. Starfshópurinn vinni greiningu á verðmyndun afurða garð- og gróðurhúsa á framleiðslustigi, heildsölustigi og á smásölustigi. Þá verði gerður eftir því sem unnt er samanburður á þessum kostnaði milli Íslands og tveggja Norðurlanda, þ.e. Danmerkur og Noregs.

3. Starfshópurinn kanni möguleika á og taki afstöðu til þess að taka upp greiðslur til framleiðenda út á og/eða veita fjármuni til:

a. rekstrarföng,

b. framleiðslueiningar,

c. afurðaeiningar,

d. framlaga til rannsókna og þróunar,

e. greiðslu á byggðastyrkjum, þ.e. að yfir það verði farið.

[16:00]

4. Starfshópurinn kanni möguleika á að draga úr skattlagningu á framleiðslu og/eða afurðir til að ná fram lækkun á verði til neytenda.

5. Starfshópurinn leggi mat á hver sé þörf á tollum á innfluttar afurðir garð- og gróðurhúsa að teknu tilliti til áðurnefndra atriða þannig að tryggja megi framleiðslumöguleika gróðurhúsaafurða og garðávaxta samanber erindisbréf. Jafnframt verði metin samkeppnisstaða garðyrkju í samanburði við aðra matvælaframleiðslu.

6. Starfshópurinn kanni möguleika á að efla samkeppni á mörkuðum með verðkönnunum og virkari upplýsingagjöf en verið hefur.

Þetta er svona það sem er gert og ég tel mjög mikilvægt að starfshópurinn fylgi því eftir sem ógert er í málinu. Ég fagna því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur lýsti því yfir úr þessum stól að hann er tiltölulega rólegur yfir þeirri aðgerð sem nú er verið að gera því að hann sé þegar farinn að sjá lækkun á grænmeti og meiri samkeppni og þess vegna sé hann tilbúinn að bíða einhvern tíma þar til þessar tillögur sem eru flókið mál líti dagsins ljós.

Hér hafa hv. þm. verið að fara yfir ýmsar leiðir í þessu efni. Ég vil segja að lýsing er engin allsherjarlausn því að sem betur fer vex hér grænmeti undir sól og regni og jarðhitinn er sterkt afl í kringum það. Raforkan skiptir þó máli og við þurfum að huga að því. En við þurfum líka, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, að hugsa um aðföngin til þessa atvinnuvegar og hvort hægt sé að lækka aðföng og rekstrarkostnað þannig að verðið lækki. Auðvitað geta menn svo metið ýmsa aðra þætti hvað þessa hollustuvöru varðar. Þetta er verk sem ég vona og veit að heldur áfram og í fyllingu tímans og sem fyrst muni þessi nefnd ljúka störfum og skila tillögum sínum inn á mitt borð. Ég vildi að það kæmi fram við þessa umræðu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að við værum oft kaþólskari en páfinn. Það er rétt. Við höfum oft tekið skyndiákvarðanir. Ég hygg að hv. þm. hafi verið að minnast þess þegar hann gerði sauðfjársamning 1990. Íslendingar, einir allra þjóða í GATT-samningunum, tóku ákvörðun um að allar útflutningsuppbætur á Íslandi yrðu felldar niður meðan Evrópa heldur enn í samkeppninni uppi ríkulegum útflutningsbótum fyrir sína bændur. Þetta var kannski ákvörðun sem var kaþólskari en hjá páfanum, þ.e. að taka þetta í skyndingu 1990 af íslenskum bændum bara með einu pennastriki. Um mjög mikla fjármuni var að ræða og þetta skapaði mikla kreppu í þeirri atvinnugrein sem sauðfjárræktin er. En sem betur fer er hún nú að þróast á ný á réttan hátt og reisa sig til mikillar sóknar samanber ágæta veislu sem ég sat hjá meistarakokkum á Flúðum núna eitt kvöldið þar sem menn borðuðu lystilega gott lambakjöt og áttu glaða stund með fólki þar sem þeir voru að kynna þessar afurðir og hvað hægt væri að gera úr þeim.

Ég hafði gaman af því hversu vel grænmetisbændum var tekið í Reykjavík á degi verkalýðsins. Þeir voru staddir í borginni með afurðir sínar, hittu fólkið, gáfu því afurðir, færðu þeim þennan fallega bækling þar sem þeir minntu á störf sín og sendu launafólki og neytendum hátíðarkveðjur á baráttudegi verkalýðsins og fóru síðan yfir sína stöðu. Þeir telja að 500 manns starfi við framleiðsluna og um 1.000 störf í tengdri þjónustu eða að samtals um 1.500 störf séu í kringum þennan glæsilega atvinnuveg. Sumir hafa reyndar haldið því fram að í fyllingu tímans, ef við stöndum rétt að þessum atvinnuvegi, geti hann orðið magnaður útflutningsatvinnuvegur.

Svo er að mörgu að hyggja. Hér t.d. á þessari fallegu síðu er góður pistill eftir Svein Aðalsteinsson skólameistara Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi. Hann vekur máls á ýmsu hvað íslenska grænmetið varðar og mismun á því og innfluttu grænmeti. Hann veltir fyrir sér hvort við þurfum að taka upp siðferðisvottun. Erlendis tíðkast margs konar ómanneskjuleg meðferð á verkafólki sem vinnur í stórum verksmiðjum við grænmetisframleiðslu, bæði barnaþrælkun og svört atvinnustarfsemi fólks úr þriðja heiminum. Í Suður-Evrópu er verið að greiða fólki um 8.000 kr. í laun fyrir 60 stunda vinnuviku og aðbúnaður þessa sama verkafólks er langt fyrir neðan það sem má teljast mönnum bjóðandi. Í Afríku og Asíu stunda stórfyrirtæki grænmetisframleiðslu þar sem börn og þrælar vinna að uppskerunni. Þá færist í vöxt í Evrópu að flytja inn gengi verkafólks úr austantjaldslöndum sem kemur til landanna undir yfirskyni ferðamennsku og vinnur í um hálfan mánuð á hverjum stað fyrir lúsarlaun. Í þessari sömu framleiðslu er plöntulyfjanotkun oft mjög mikil en við framleiðslu hér á landi er hún nær óþekkt í dag.

Sveinn sagði enn fremur að siðferðisvottun af þessu tagi þekktist annars staðar á Norðurlöndunum og vafamál er að sumt af því ódýra grænmeti sem flutt er inn hér á landi stæðist slíka vottun þannig að auðvitað er um margt að hugsa. Ég kom til Kína og frétti hvaða laun þeir borga, 12 þús. kr. á ári til verkamannsins og eru að setja upp þessa gríðarlega stóru verksmiðju. Sé ég nú að það glaðnar yfir hv. þm. Pétri H. Blöndal því að hann sér í hillingum að þetta sé leiðin eða hann svarar því auðvitað á eftir. Ekki ætla ég að væna hann um það í sjálfu sér. En ég veit þó eitt að hann hefur það fram yfir margra aðra hér að hann er vinur ríkissjóðs og hefur sýnt það hér oftar en ekki í þessum umræðum.

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri ágætu umræðu sem hér fer fram um þetta mál og tel þetta auðvitað það sem við gátum, ég vil segja í skyndingu, gert því að þetta er lækkun til neytenda á mikilvægum vörum sem getur numið á ársgrundvelli 70--100 millj. Leiða verður leitað til þess að horfa með háu ljósunum fram í tímann til þess að finna leiðir til að lækka verð á grænmeti um leið og við reynum að styrkja okkar frábæru grænmetisframleiðslu til þess að standast samkeppni og sjá ekki síst þær vörur lækka í verði.