Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:07:57 (7557)

2001-05-11 16:07:57# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. talaði eins og það væri einhver hugarburður eða tilbúningur hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar að landbrn. ætti nokkra sök á því hvernig málum var komið á heildsölumarkaði fyrir grænmeti þegar samkeppnisráð gaf út sína skýrslu. Það er auðvitað alrangt, herra forseti. Það eina sem ég hef t.d. sagt er ekkert annað en það sem hægt er að lesa beint úr skýrslu samkeppnisráðs. Ráðið segir t.d. nánast hreint út að framkvæmd ráðuneytisins á tollaákvæðum hafi auðveldað þeim fyrirtækjum sem gerðust sek um hið ólöglega samráð að halda því uppi til þess að ná sér í aukinn hagnað. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu samkeppnisráðs.

Samkeppnisráð segir líka hreint út að það telji að markmið GATT/Úrúgvæ samningsins um að draga úr viðskiptahömlum til að örva milliríkjaviðskipti og auka valfrelsi neytenda hafi ekki verið haft að leiðarljósi við framkvæmd landbrn. á ákvæðum um álagningu tolla á innflutt grænmeti. Samkeppnisráð segir líka í skýrslu sinni að einstakir heildsalar á markaði hafi freistað þess að nota persónuleg ítök sín í gegnum landbrn. til þess að hagræða málum sér í vil og ekki er hægt að skilja skýrsluna öðruvísi en svo að í sumum tilvikum hafi það tekist, herra forseti.

Að öðru leyti vil ég segja að það er gott hjá hæstv. landbrh. að koma og beita sér fyrir breytingum. En eru upptök breytinganna hjá honum? Nei.

Í skýrslu samkeppnisráðs kemur líka fram að í september í fyrra hafi hann verið spurður í bréfi hvort hann hygðist beita sér fyrir breytingum, hvort einhverjar breytingar væru fyrirhugaðar. Svarið er nei. Það er þrýstingur Alþingis og þrýstingur Neytendasamtakanna, þrýstingur fjölmiðlanna sem gerir það að verkum að hann er nauðbeygður til að fara í þessar breytingar. Ástæðan fyrir því að við erum með þetta frv. núna er ekki sú að hann vildi taka þessar breytingar fyrir núna, heldur sú að grænmetisnefndin ákvað að skila áfangatillögum til þess að þingið gæti tekið þetta fyrir. Hann átti ekki frumkvæði að því.