Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:10:12 (7558)

2001-05-11 16:10:12# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt lykilatriði er að segja satt og fara ekki með rangt mál. Ég svaraði fyrr úr þessum ræðustól um það sem segir í skýrslu samkeppnisráðs, að landbrn. hafi verið spurt hvort til stæði að lækka verð á grænmeti og að svarið hafi verið nei. Sá sem hér er var ekki spurður. En það hefur verið rætt á milli stjórnarflokkanna og við höfðum þegar sett í gang nefndir sem voru farnar að starfa því við ætluðum sannarlega að vera komnir fyrr á leiðarenda í þessu máli þannig að hvað sem hv. þm. hamrar á þessu hjá samkeppnisráði, þá var málið með þessum hætti. Það var vilji til þess og það var verið að skoða það mál í vetur, hvaða leiðir væru til bæði af lögbundinni nefnd og samráði í ríkisstjórn. En við vorum ekki komnir lengra en þetta þegar þessir hlutir gerðust. Minn ráðuneytismaður hefur því kannski ekki vitað betur. Ég veit ekki hver var spurður en hann hefur kannski ekki vitað það þegar hann svaraði þessari spurningu samkeppnisráðs.

Ýmsir hlutir eru fluttir inn með alls konar skilyrðum, bjór og brennivín o.fl. og ég veit ekki hvað gerist í skjóli þess. Það eru margir vöruflokkar fluttir inn með alls konar skilyrðum þannig að það gerist alltaf eitthvað í skjóli þess. En ég vil spyrja hv. þm. hvort honum finnist kannski ekki að einhvers staðar hafi brugðist frekar eitthvert verðlagseftirlit. Mér finnst að Samkeppnisstofnun hafi síðar komist að þeirri niðurstöðu þegar stóra skýrslan kom út að þar væri kannski þyngri sök, þar lægi kannski meiri sannleikur um hvers vegna verð hefði þróast þannig frá 1995--2001 að smásalan hefði hækkað sig skart.