Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:46:31 (7568)

2001-05-11 16:46:31# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil kannski ekki flækja mig um of í föstum tölum af því að þær liggja ekki alveg ljósar fyrir, en menn voru að giska á 50--70 millj. Aðrir hafa verið að tala um að þetta hefði þýðingu upp á 70--100 millj. Ég ætla ekki að fullyrða alveg um hvað þetta verður. Það verður reynslan að skera úr um. En einhvers staðar á þessu bili verður þessi upphæð sem lækkun tollanna þýðir. (JóhS: En magnið?) Ég þori ekki að fara með það hér hvað magnið er og hef ekki nákvæmar tölur um það. En þetta er heilmikil breyting.

Hvað varðar raforkuverðið sem hv. þm. staglast dálítið mikið á, ég á ekki að segja staglast heldur ræðir dálítið mikið um og fleiri hafa gert, þá hefur það auðvitað ekki allt að segja en það hefur mikið að segja. Það var ákveðið á ríkisstjórnarfundi að ekki síst iðnrh. í samráði við landbrh. og þessi ráðuneyti setjist yfir þá stöðu með Rarik og Landsvirkjun til að athuga hvort ónotuð orka sé til staðar sem hægt er að selja miklu ódýrari, gerð yrði ítrekuð tilraun til að leita að ódýru rafmagni til að beina inn í þessa grein. --- Ég sé að hv. þm. Hjálmar Árnason er mættur. Þá koma manni í hug vísindin og framtíðin og þessi mikla tilraun sem nú fer fram í Hveragerði um að búa til ódýra raforku á nýjan máta þannig að margt er á döfinni í þeim efnum.

Verðmyndun á grænmeti, hvernig hún fer fram og hvernig eigi að verðmerkja í búðum, þá verður mér æ meir hugsað til orða hv. þm. í þeim efnum þegar maður sér að þeir stóru gera kröfur um afslætti hjá heildsölunum. Það kemur fram hjá Samkeppnisstofnun að heildsalarnir og litlu birgjarnir og litlu framleiðendurnir eru eins og mús undir fjalaketti, þeir virðast eiga erfitt líf og þetta er undarleg staða. Þess vegna tel ég það þess virði að efh.- og viðskn. fari yfir þá stöðu og hv. þm. mun áreiðanlega beita sér fyrir því.