Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:16:34 (7576)

2001-05-11 17:16:34# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar síðustu spurningu, þá er það hárrétt hjá hv. þm. að það skiptir mjög miklu máli samkvæmt alþjóðasamningum hvernig stuðningi við megum beita, hvort framleiðslustuðningur kemur til greina vegna alþjóðasamninga o.s.frv. Það er eitt af þeim atriðum sem eru miklu flóknari en sá sem hér talar taldi í upphafi máls síns og þarf að fara vel yfir.

Hvað tölurnar varðar, hvort það eru 50, 70 eða 100 millj., þá eru sérfræðingar að tala um þær upphæðir, þeir sem hafa verið að meta þetta. Ég ætla ekkert að fullyrða um það. Ég sagði í fyrstu 50--70, hér áðan 70--100 og það er ljóst að tollar á þessum vörum eru upp í 170. Þetta hefur áhrif, en hér er verið að tala bæði um 30% tolla af öllu því sem við ekki framleiðum, það fellur niður, og síðan að auka magntolla og búa til sveigjanlegra kerfi. En þetta hefur heilmikið að segja.

Mér finnst mjög mikilvægt að vita heildarafstöðu Samfylkingarinnar til málsins. Það væri t.d. mjög fróðlegt við 2. umr. að gá hvort samstaða sé um þær skoðanir Samfylkingarinnar sem hafa komið fram í dag, tollana burt, og gera þetta eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur talað og eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur talað. Það væri mjög gagnlegt að varaformaður Samfylkingarinnar yrði við 2. umr. til að heyra skoðanir hennar til þessara mála. En ég spyr hv. þm.: Er alger samstaða í Samfylkingunni á bak við skoðanir hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, foringja Samfylkingarinnar? Er Samfylkingin samhuga að baki honum í skoðunum með þeirri tillögugerð sem hann hefur hér, að tollarnir skuli fara án þess að málið sé skoðað, en þeir eru kannski það sem best stenst í sambandi við alþjóðasamningana?