Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:18:46 (7577)

2001-05-11 17:18:46# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Svarið við spurningum hæstv. landbrh. er já. Það er fullkomin samstaða um þær aðferðir sem ég hef verið að reifa í dag, þ.e. að taka niður þessa tolla á tilteknu tímabili og reyna að grípa til einhvers konar aðgerða sem gætu leitt til þess að innlendir framleiðendur næðu að fóta sig í samkeppninni. Ég hef reifað tvær, þrjár, fjórar aðferðir til þess.

Ég viðurkenni hins vegar fúslega, herra forseti, að ég er ekki algerlega heima í því hvað er leyfilegt samkvæmt alþjóðlegum samningum. Ég geri mér ekki algerlega grein fyrir því hvað þeir grænu eða gulu styrkir sem heimilir eru samkvæmt GATT/Úrúgvæ-samningnum gætu haft í för með sér ef við færum í einhvers konar styrkingu á innlendu framleiðslunni. En hver á að vita það, herra forseti? Það er hæstv. landbrh.

Ég hef spurt hæstv. landbrh. tveggja spurninga sem varða tæknilega útfærslu á þessum hlutum. Hver á að vita það ef ekki ráðherrann sem kemur hingað til að tala faglega um málið sem hann veitir faglega forustu? Það er að sjálfsögðu hæstv. ráðherra. Ég hef spurt hann: Hversu miklu mun ríkið tapa í tekjum við samþykkt þessa frv. ef hann nýtir sér að fullu þær heimildir sem í því eru? En því hefur hann lýst yfir að hann muni gera. Getur verið að hæstv. ráðherra hafi ekki hugmynd um það? Getur það líka verið, eins og mér fannst á máli hæstv. landbrh., að hann hefði ekki hugmynd um það sjálfur hvernig hægt væri að beita stuðningsaðgerðum gagnvart innlendu framleiðslunni þannig að þær væru ekki í andstöðu við alþjóðlega samninga? Hver hefur talað hæst um möguleikana á því? Það er hæstv. ráðherra. Getur svo verið að hann komi hingað og viti ekki haus né sporð á því sem hann er að tala um? Ég á bágt með að trúa því, herra forseti. En lengi skal manninn reyna.