Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:20:44 (7578)

2001-05-11 17:20:44# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málflutningur hv. þm. og foringja Samfylkingarinnar er náttúrlega með eindæmum. Útúrsnúningar, smámunasemi og hálfgerð villimennska í þessari umræðu. Það er náttúrlega ófært að eiga rökræður við menn sem tala eins og hv. þm. Hann er foringi þessa aumingja flokks sem hann styður.

Það liggur fyrir að hv. þm. virðist ekki einu sinni vita um það að allar þær afurðir sem hér er verið að tala um eru án allra tolla frá 1. nóvember til 15. mars. (ÖS: Ég veit allt um það.) Það er gott að heyra. Þá glittir í einhverja glóru, hæstv. forseti. Hv. þm. hefur hugmynd um að þetta er svona. Mér heyrðist hann ekki hafa það í ræðustólnum áðan.

Síðan hef ég margsagt hér að það er lögskipuð nefnd samkvæmt lögum frá Alþingi sem hefur það hlutverk að vera landbrh. til ráðgjafar. Hún mun gera tillögur til mín um hvernig að þessum málum verður staðið. Það er vilji stjórnarflokkanna til að standa vörð um íslenska grænmetisframleiðslu. Ég er eiginlega rökþrota í þessu við hv. þm. því að það er engin leið að hemja hann. Það er engin leið að ná honum í þessum ræðustól þannig að hægt sé að tala við hann eins og maður við mann því að hann kemur alltaf úr allt annarri átt. Þess vegna eiga tillögur ráðgjafarnefndarinnar eftir að koma fram. Hvað leggur ráðgjafarnefndin til? Hvaða þýðingu hefur það á hvort um er að ræða 50, 70 eða 100 millj.? Í þessu er sveigjanlegt kerfi og miklu meira frelsi til að fella niður tolla og lækka þá á öðru. Ég ætla að vona að hv. þm. Össur Skarphéðinsson lesi heimastílinn sinn betur en hann hefur gert í dag.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill mælast til þess almennt séð að talað sé af fullri virðingu um alla þá þingflokka sem sitja hið háa Alþingi.)