Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:22:55 (7579)

2001-05-11 17:22:55# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni látum okkur í léttu rúmi liggja skort hæstv. landbrh. á almennri kurteisi og venjulegum mannasiðum. Hann hefur oft áður orðið sér til skammar úr þessum stóli, herra forseti. Hann kann ekki mannasiði og þegar hann er rökþrota, herra forseti, grípur hann til þess að ausa fúkyrðum yfir þingheim, m.a. þá sem eiga við hann málefnalegar rökræður.

Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum reynt að eiga málefnalegar rökræður við hæstv. landbrh. Þá kemur hann hér og kallar menn aumingja. Mér kemur ekki til hugar að beita slíku orðbragði við hæstv. landbrh. Ég kann að hugsa sitthvað, en ég ber virðingu fyrir honum og þeim skoðunum sem hann hefur þó að sú virðing sé ekki endurgoldin af hans hálfu gagnvart nokkrum þeim sem kýs að eiga við hann orðaskipti um málaflokk sem honum er trúað til þess að veita forustu fyrir en veit ekkert um. Það sem hæstv. landbrh. skortir er ekki bara virðing fyrir andstæðingum sínum heldur líka fyrir landbúnaðinum í landinu. Hæstv. landbrh. kemur hingað og hann stendur á gati. Hæstv. ráðherra fellur á prófinu. Hann veit ekki grundvallaratriði í því máli sem verið er að tala um við hann.

Hæstv. landbrh. er spurður einnar einfaldrar spurningar. Hann hefur leitt inn í þessa umræðu möguleikann á beinum stuðningi við innlenda framleiðslu. Við vitum það báðir, ég og hæstv. landbrh., að ákveðin takmörk eru á því samkvæmt þeim alþjóðlegu samningum sem við erum aðilar að. Og ég spyr hæstv. ráðherra sem fagráðherra: Hvað getum við leyft okkur í beinum framleiðslustuðningi við innlenda framleiðslu? Hann kemur hingað og hann veit það ekki. Hæstv. ráðherra hefur ekki lært heima. Svo kemur hann og atyrðir aðra þingmenn fyrir að geta ekki lesið heimastíla. Herra forseti. Ég kem ekki með neinn heimastíl. Ég kem bara með almenna vitneskju. Ég læri heima og það ætti hæstv. landbrh. að sjá sóma sinn í að gera en koma ekki hér eins og skólastrákur og standa á gati, vita ekki hvað hann er að tala um.