Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:41:51 (7582)

2001-05-11 17:41:51# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Forsvarsmenn öryrkja héldu því fram þegar þær aðgerðir voru kynntar, sem hæstv. heilbrrh. hefur nú mælt fyrir, að það vantaði 8.500 kr. á mánuði í lífeyrisgreiðslur til að þær fylgdu launaþróun í samræmi við lög sem sett voru 1. janúar 1998. Forsvarsmenn öryrkja héldu því líka fram að þrátt fyrir slíkar aðgerðir þegar þær yrðu orðnar að lögum, þá vantaði enn 2.000 kr. á mánuði upp á lífeyrisgreiðslur til að þær héldu í við launaþróun eins og lögin frá 1998 kvæðu á um. Þetta er í samræmi við það sem ég hef haldið fram á hv. Alþingi og innti fyrrv. heilbrrh., Ingibjörgu Pálmadóttur, eftir rétt áður en hún yfirgaf ráðherrastól sinn og hún lofaði að kanna það í ráðuneytinu hvað væri hæft í því að lífeyrisgreiðslur hefðu ekki fylgt launavísitölu.

Stjórnarandstaðan hélt því fram 1998 þegar þessi lög voru sett og vitnaði þar í orð forsrh. þegar hann mælti fyrir frv. að það ákvæði sem samþykkt var á þeim tíma bæri að túlka svo að miða ætti við launavísitölu. Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hafi látið kanna að þessa fjárhæð vanti upp á að lífeyrisgreiðslur haldi í við það sem lög frá 1. janúar 1998 kveða á um. Og einnig hvort hann geti þá staðfest þessar tölur sem Öryrkjabandalagið hefur haldið fram í tengslum við þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra er hér að kynna.