Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 18:15:49 (7590)

2001-05-11 18:15:49# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra minntist á kynninguna sem ég gerði nokkuð að umtalsefni í ræðu minni áðan og ég vil hæla hæstv. ráðherra fyrir að hann skyldi kynna skýrsluna og áform sín fyrir hagsmunahópum og öðrum þeim sem hann taldi að þyrfti að kynna hana fyrir áður en hún fór í fjölmiðla (Gripið fram í: Og stjórnarandstöðunni líka.) og stjórnarandstöðunni líka, þ.e. þingflokksformönnum. Ég tel það jákvætt og ég vil hæla honum fyrir það.

Hæstv. ráðherra segir í andsvari að hann muni vinna áfram að endurskoðun almannatryggingalaga. Ég fagna því. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að almannatryggingalögin, sem eru að grunni frá 1971, hafa verið endurskoðuð nánast frá því að þau voru sett með einhverjum hléum og með misjöfnum árangri og litlum yfirleitt. Ég spyr hæstv. ráðherra: Verður þar sama nefndin á ferðinni eða munu fleiri koma að því? Ég minnist þess að eitt sinn var hér á ferðinni önnur almannatryggingalagaendurskoðun þar sem stjórnarandstaðan og hagsmunaaðilar áttu t.d. aðild að og ég spyr hvort sami háttur verði hafður á eða hvort fleiri komi þar að. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann muni leggja sig fram um að einfalda kerfið. Ég bara bið hann um það lengstra orða að koma því þannig fyrir að hægt verði að einfalda þetta kerfi. Bara með þessari lagabreytingu verður orðið ansi erfitt fyrir mjög marga og jafnvel flesta að túlka, kynna og framkvæma þessa löggjöf eins og hún er orðin, flókin, toguð og teygð eins og almannatryggingalögin eru því miður orðin og lagast ekki við þetta.