Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 18:59:50 (7597)

2001-05-11 18:59:50# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við með að samstaða hafi verið um þetta kerfi er að við erum sammála um að kerfið eigi að koma til móts við þá sem mest þurfa. Ég held að við getum verið sammála um það. Ef hv. þm. hefur skilið það á annan máta en ég hef sagt þá er það miður.

Hins vegar verð ég líka að benda á, einmitt vegna ummæla hv. þm. í ræðu hans fyrr í dag, að hann nefndi að bætur hér á landi væru lakari en t.d. á Norðurlöndum. Ég fór mjög ítarlega í gegnum það í umræðunni í janúar að í skýrslu frá NOSOSKO og hjá sérfræðingum sem komu til okkar á fund kom fram að þeir einstaklingar sem þurfa algerlega að reiða sig á bætur úr almannatryggingakerfinu eru betur settir þegar saman er talið hér á landi, bæði einstaklingar og hjón. Við fórum mjög ítarlega í gegnum þá umræðu.

[19:00]

Hins vegar varðandi það atriði sem snýr að skipulagi kerfisins þá hafa þær hugmyndir verið uppi að allir eigi að hafa sama rétt og allir eigi að fá sömu upphæð frá almannatryggingakerfi, algjörlega burt séð frá öðrum tekjum. Ég er ekki sammála því kerfi og ég get ekki ímyndað mér að hv. þm. séu sammála því kerfi. Síðan hefur hugmyndin verið sú að skattkerfið ætti að jafna þetta út. Ég rakti í ræðu minni hvílíks fjármagns þetta krefst. Ég tel ekki að við séum tilbúin til að fara þessa leið og ég tel að hún sé ekki réttlát leið. Við eigum fyrst og fremst að nota almannatryggingakerfið til að koma til móts við þá sem þurfa á stuðningi að halda og eftir því sem tímar líða að láta lífeyriskerfið verða meginstoðina eins og við höfum rætt um.