Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 19:04:17 (7599)

2001-05-11 19:04:17# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[19:04]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. varðandi fátækt hér á landi eins og kannanir hafa sýnt. Það hefur verið sýnt fram á að fátækt er hér í ríkari mæli en annars staðar. Það er alveg rétt. Þess vegna er verið að leggja sérstaka áherslu á að bæta kjör þeirra sem verst hafa kjörin og ég tel það vera rétta stefnu.

Hins vegar hafa kannanir líka sýnt að fátækt fer minnkandi hér á landi. Hvað er það sem hefur gert það að verkum? Jú, það er lífeyriskerfið sem m.a. verkalýðshreyfingin hefur staðið að. Lífeyriskerfið hófst á almenna markaðnum 1974. Það er að styrkjast. Gerðar hafa verið ákveðnar breytingar á ramma lífeyrissjóðanna sem gerir það að verkum að þeir eru enn styrkari í dag en þeir voru fyrir nokkrum árum. Aðilar í þessu þjóðfélagi hafa því tekið ákvarðanir til þess einmitt að styrkja þetta kerfi svo að það verði þess megnugt að standa undir góðum kjörum fólks þegar það kemur á þann aldur sem það fer á ellilífeyri. Fyrir utan það hjálpar það einnig öryrkjum. En það er einnig rétt sem kom fram í máli hv. þm. varðandi öryrkjana að stór hópur þeirra hefur ekki rétt í lífeyriskerfinu vegna þess að þeir hafa verið öryrkjar alla ævi og þann hóp þarf sérstaklega að skoða. Sú leið sem hv. þm. nefndi áðan varðandi sérstakt iðgjald þeim til handa finnst mér vera atriði sem er verðugt að skoða til að tryggja þeim ákveðin réttindi þegar til lengri tíma er litið.

Við vitum að þetta mál er margflókið en ég hef lýst skoðunum mínum varðandi grundvallarhugmyndir mínar í þessum efnum og mér er alveg ljóst að þetta er ekki bara svart og hvítt. Það eru ákveðin millistig þar á milli líka.