Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 19:08:56 (7601)

2001-05-11 19:08:56# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla heldur ekki að lengja umræðuna. Við fórum í gegnum þetta mál, varðandi kjör og samanburð á kjörum lífeyrisþega á Norðurlöndum, í janúar og ég gerði mér svo sem engar vonir um að ég mundi ná að sannfæra hv. þm. nú frekar en þá. En ég fann mig hins vegar knúna til þess að benda á það vegna þeirrar fullyrðingar sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan.

Varðandi það atriði að kjör lífeyrisþega hafi ekki fylgt launaþróun þá kom það mjög vel fram í máli hæstv. heilbrrh. áðan að kjör lífeyrisþega hafa fylgt launaþróun á almenna markaðnum og það kemur m.a. fram í því línuriti sem fylgir í skýrslu sem er fskj. með frv. Það mætti þá segja mér að með þeim bótum sem eru nú til viðbótar nái kjör lífeyrisþega að fylgja launaþróun og vel það á almenna markaðnum því að ég heyrði áðan sagt að það væri 6 þús. kr. munur sem ætti þá að vera 2 þús. kr. munur út frá þeim forsendum sem hv. þm. gefur sér. Þetta segir mér að kjörin hafa náð núna að vera fyrir ofan línu um almenna launaþróun á almenna markaðnum.