Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:33:10 (7611)

2001-05-12 17:33:10# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að undanfarna daga hafa útgerðarmenn verið að herða róðurinn í áróðursstríði sínu gegn sjómönnum. Talsmenn þeirra hafa komið fram í fjölmiðlum og haft þar í hótunum við sjómenn.

Því er vissulega ekki að neita að menn hafa óttast að þess kynni að vera skammt að bíða að ríkisstjórnin skæri húsbændur sína í LÍÚ niður úr þeirri snöru sem þeir hafa komið sér í með óbilgirni sinni. Við höfðum fallist á að hér yrði svokallaður útbýtingarfundur í dag. En, herra forseti, það hvarflaði ekki að nokkrum manni að hann yrði nýttur á eins ósvífinn hátt og raun ber hér vitni.

Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum og mótmæla því sem til stendur að gera gagnvart íslensku sjómannastéttinni.