Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:34:19 (7612)

2001-05-12 17:34:19# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég held að rétt sé áður en lengra er haldið þessum ræðum að hæstv. forseti svari því hvort það sé ekki rétt sem spurst hefur að hér eigi að fara að dreifa frv. til laga um að stöðva verkfall sjómanna. Ég vil taka undir það með þeim sem hér hafa talað að ef það er rétt þá undrast ég þau vinnubrögð og ég undrast mjög að það skuli vera gert með þessum hætti því að eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði frá áðan þá var á fundi formanna þingflokka fyrir helgi fallist á að útbýtingarfundur yrði í dag, en þess var í engu getið að dreifa ætti frv. um lög á sjómenn.

Herra forseti. Áður en við höfum stóru orðin fleiri vil ég spyrja hæstv. forseta og óska eftir að hann svari því hvort rétt sé að til standi að býta út frv. til þess að stöðva verkfall sjómanna.