Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:37:20 (7614)

2001-05-12 17:37:20# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er afar erfitt að ræða um það frv. sem liggur þó í loftinu að eigi að fara að dreifa meðan forseti fæst ekki til þess að samþykkja eða synja þeim spurningum sem hér hafa verið fram bornar. Það að ekki er búið að dreifa frv. og að fundir virðast enn standa í fundarherbergjum stjórnarþingmanna bendir til þess að málið sé e.t.v. ekki eins einfalt og hæstv. ríkisstjórn virðist hafa haldið þegar hún lét það leka út að það ætti að fara að setja lög á sjómenn vegna þess, herra forseti, að það fór ekkert fram hjá okkur sem vissum að hér átti að vera útbýtingarfundur þegar fréttir núna kl. fimm hermdu að það ætti að fara að setja lög á sjómenn. Það er ekki tilviljun að fréttamenn eru komnir með þær fregnir til þess að greina þjóðinni frá. Menn hljóta að standa í forundran og spyrja hvað sé hér að gerast, einfaldlega vegna þess að miðað við þær takmörkuðu fréttir sem þó komu, virðist vera um aðra eins konar frestun að ræða. Mönnum er gefinn tími.

Það var reynt áður, herra forseti. Mönnum var gefinn tími. Og hvaða niðurstöðu gaf það? Jú, það gaf þá niðurstöðu að mati hlutaðeigenda, að mati deilenda, að það dró deiluna heldur á langinn. Það gerði hana heldur dýpri og verri en verið hafði. Þessi vinnubrögð, herra forseti, eru því algjörlega forkastanleg og við hljótum að mótmæla því að Alþingi sé notað aftur og aftur til þess beinlínis að koma í veg fyrir það að þeir sem eiga að gera samninga á frjálsum markaði geti gert það, því það er það sem verið er að gera með sífelldum afskiptum sem leiða það eitt af sér að þessir aðilar munu aldrei geta náð samningi vegna afskipta Alþingis. Það er hörmulegt, herra forseti.