Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:39:33 (7615)

2001-05-12 17:39:33# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fer fram á að forseti svari spurningum sem þingmenn leggja fyrir hann og veiti upplýsingar um stöðu málsins. Nóg er nú samt þó að virðulegur forseti þingsins sýni okkur þingmönnum hér ekki þá dæmalausu óvirðingu að virða okkur ekki einu sinni svars. Getur forseti engar upplýsingar veitt um stöðu þessa máls? Er það rétt að í undirbúningi sé að dreifa frv. um lög á sjómenn? Ef það er ekki rétt þá er ekki síður mikilvægt að sú vitneskja komi fram því að það er náttúrlega mikill skaði skeður með þessum orðrómi einum saman sem farinn er á flot. Ekki er hann líklegur til þess að auðvelda mönnum samskiptin í samningaviðræðum ef það yrði ofan á að ekki yrðu sett lög á allra næstu dögum.

Fyrst og síðast, herra forseti, gengur það auðvitað ekki að forseti hegði sér þannig við fundarstjórnina að hann virði þingmenn ekki svars þegar spurt er um einföld atriði sem fullkomlega eðlilegt er að menn óski uplýsinga um af hálfu forseta. Ég minnist þess varla að forsetar hafi áður, alla vega ekki í minni tíð hér sem er rúmlega 18 ár orðin, við sambærilegar aðstæður hegða sér eins og forseti hefði misst málið og hefur það nú ekki háð sérstaklega þeim hv. þm. sem skipar það embætti nú um stundir að vera virðulegur forseti Alþingis að geta ekki komið fyrir sig orði ef svo ber undir.

Herra forseti. Ég fer fram á það að forseti sýni okkur ekki þetta virðingarleysi og svari þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram og mun mótmæla því harðlega og við önnur tækifæri ef forseti gerir það ekki.