Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:44:55 (7618)

2001-05-12 17:44:55# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við sem þekkjum þann hv. þm. sem nú gegnir embætti hæstv. forseta vitum að hann er gamansamur maður. Ég ímynda mér að hann hafi haft nokkuð gaman að þessu gríni sem hér hefur staðið yfir núna í 15--20 mínútur.

Við höfum komið hingað nokkrir þingmenn til þess að vera viðstaddir útbýtingarfund og okkur var gert viðvart um þann fund af hálfu þingsins, a.m.k. þeim sem hér stendur þannig að það var alveg ljóst að eitthvað stóð til.

[17:45]

Nú sé ég það hins vegar, herra forseti, að fyrst hæstv. forseti getur ekki kveðið upp úr með það hvort hér eigi að dreifa frv. til laga sem á að binda endi á verkfall sjómanna þá hlýtur það að stafa af einhverju öðru en meintri gamansemi hæstv. forseta. Getur verið að hæstv. forseti geti ekki svarað þessari spurningu vegna þess að hann viti ekki svarið? Getur verið að stjórnarliðið sé svo klofið í deilum um þetta frv. að ekki hafi tekist að ná niðurstöðu í liði stjórnarinnar? Er það kannski það? Gæti verið að einhverjir hv. þm. stjórnarliðsins hafi tekið mark á yfirlýsingu hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. um að ekki stæði til að setja lög á sjómenn? Getur verið að menn hafi metið orð þeirra manna þannig að þeir vilji ekki slíta í sundur trúverðugleika þeirra núna?

Ég held að það hljóti að vera það, herra forseti, sem veldur því að nú standa yfir fundir í liði stjórnarinnar þar sem menn eru bersýnilega að deila um þetta. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvort að ganga eigi á bak orða hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh.

Ég vil því biðja hæstv. forseta að upplýsa hvort hann hyggist fresta fundinum og þá hversu lengi og hvort hann geti í millitíðinni gert reka að því að verða sér úti um vitneskju sem gæti e.t.v. bundið endi á þennan farsa sem hæstv. forseti á nokkrun þátt í, ekki síður en aðrir úr liði stjórnarinnar. Hann gæti þá kannski upplýst okkur um hvað á að gera á þessum fundi.