Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:31:43 (7619)

2001-05-12 18:31:43# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir vanþóknun minni á þeim vinnubrögðum sem við höfum orðið vitni að á hinu háa Alþingi. Ég vil fordæma þá vanvirðingu sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar, lýðræðislega kjörnum fulltrúum á þessari samkundu, hefur verið sýnd hér í dag. Ég ætla ekki að fara, herra forseti, í þessari umræðu út í efni þess frv. sem nú hefur verið dreift enda er ég hér komin til þess að fjalla um fundarstjórn forseta.

Herra forseti. Hér gerist það að boðað til útbýtingarfundar, látið vita af því að útbýtingarfundur eigi að eiga sér stað. En fyrir því eru engin fordæmi, herra forseti, eftir því sem mér skilst, a.m.k. ekki í sögu þeirra elstu manna sem hér muna á hinu háa Alþingi, að útbýtingarfundur sé notaður nánast í skjóli nætur til þess að dreifa óvæntu og umdeildu frv. á borð við það sem hér er á borðum hv. þingmanna. Ég vil fordæma þessi vinnubrögð, herra forseti.

Auðvitað hefði verið eðlilegra, ef þetta var það sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forseti taldi rétt að gera, að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu a.m.k. verið látnir vita. Það var alls ekki gert og ekki var á einn eða neinn hátt látið að því liggja að hér stæði til annað en að dreifa, eins og venjan er um útbýtingarfundi, málum sem eru ekki óvænt eða pólitískt umdeild. Hér er á ferðinni algjört einsdæmi eftir því sem mér skilst. Það þarf þá a.m.k. að leita langt aftur til þess að menn muni slíka framkomu við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og við þessa löggjafarsamkundu, herra forseti.

Síðan gerist það að þeir þingmenn sem áttuðu sig á því hvað hér stæði til koma og spyrja hæstv. forseta Alþingis margsinnis út í það hvað standi til. Hæstv. forseti svarar ekki spurningum hv. þingmanna. Ítrekað kemur það fyrir að hann er spurður og hann svarar ekki spurningum hv. þingmanna heldur frestar fundi án þess að svara spurningum um hvað hér standi til.

Herra forseti. Það sem hér birtist í dag var löggjafarsamkunda í gíslingu framkvæmdarvaldsins og mér þykir mjög miður að hafa orðið vitni að því. Þessum fundi er frestað á meðan stjórnarflokkarnir sitja yfir því, þingflokkar stjórnarinnar, hvort þeir ætli að samþykkja þetta umdeilda frv. fyrir sína hönd. Á meðan erum við látin bíða hér án þess að fyrir liggi svör við því hvað standi til.

Herra forseti. Ég vil enn og aftur lýsa yfir vanvirðingu minni á því sem hér gerðist og mér þykir mjög miður að hafa orðið vitni að því.