Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:45:06 (7627)

2001-05-12 18:45:06# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem telja að fundarstjórn hæstv. forseta sé nokkuð ámælisverð. Mér finnst að það tjói lítt fyrir hæstv. forseta að vísa til hinna formlegu fundarskapa til að verja gerðir sínar. Nú er það svo að við högum okkar störfum í þinginu samkvæmt ýmsum hefðum sem ekki eru allar skráðar í hin formlegu fundarsköp. Meira að segja ávarpsorðin sem við þurfum öll að beita þegar við ávörpum hvert annað eða hæstv. forseta, um þau er ekkert sagt í þingsköpum. Hér hafa þróast ákveðnar hefðir. Grundvallarstefið í þessum hefðum er ákveðinn trúnaður milli forsetadæmisins og þingmanna.

Það skiptir ákaflega miklu máli að trúnaðartraust sé á milli hæstv. forseta, þess þingmanns sem gegnir því embætti hverju sinni, formanna þingflokka og þingmanna yfirleitt, hvort heldur þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Mér þykir miklu skipta að hæstv. forseti svari spurningu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi til hans áðan. Þetta var ákaflega einföld spurning. Hún var svona: Vissi hæstv. forseti í gær, þegar hann átti fund með formönnum þingflokka, að á þeim útbýtingarfundi sem nú hefur verið boðað til stæði til að dreifa frv. sem hér hefur nú verið dreift? Það skiptir öllu máli. Ef það er svo að hæstv. forseti hafi leynt stjórnarandstöðuna því sem til stóð þá á hann ekki skilið vott af trúnaði af okkar hálfu eða samstarfsvilja.

Það mál sem hér er lagt fyrir er þess eðlis að með því teljum við í stjórnarandstöðunni að ráðist sé á grundvallarmannréttindi. Það verður nokkuð erfitt fyrir okkur að kyngja því ef í ljós kemur að hæstv. forseti hafi vitað hvað til stóð þegar hann átti þennan fund með hv. formönnum þingflokka. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að hæstv. forseti hafi vitað þetta en spurningin hefur komið fram. Meðan henni er ekki svarað, játandi eða neitandi, þá er efinn sem ríkir óþægilegur og hann mun setja mark sitt á samskipti hæstv. forseta og þingflokkanna.

Hér hefur komið fram, m.a. frá hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, formanni þingflokks Sjálfstfl. að menn hafi ekki vitað hvað til stóð. Heyr á endemi. Meira að segja þættir í útvarpinu, dægurlagaþættir, eru rofnir til þess að greina frá því fyrr í dag að það standi til að setja lög á sjómenn. Svo kemur hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir heilög í framan og heldur því fram að enginn hafi vitað af þessu. Það skiptir mig ekki máli en það skiptir mig nokkru máli, upp á það samstarf sem ég þarf að eiga við hæstv. forseta, að hann svari spurningunni sem hv. þm. Ögmundur Jónasson varpaði til hans. Vissi hann af þessu?

Í annan stað, herra forseti, hefðu það verið almennir mannasiðir að stjórnarandstaðan hefði verið látin vita af þessu þegar í stað er forseti fékk af þessu að vita.