Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:48:33 (7629)

2001-05-12 18:48:33# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég væri sennilega að segja ósatt ef ég segði að sú uppákoma sem hér hefur orðið kæmi mér á óvart. Þannig hefur stjórnarandstaðan oft hegðað sér að undanförnu, af fullkomnu ábyrgðarleysi og ekkert skeytt um þingsköpin.

Staðreynd málsins er einfaldlega sú að hér er verið að dreifa stjfrv. sem ekki er beðið um að verði tekið á dagskrá eða til umræðu. Það er einfaldlega verið að dreifa því og einfaldlega verið að fylgja þeim reglum þingskapanna að málum skuli hafa verið dreift tveimur nóttum áður en þau eru tekin til umræðu. Verið er að uppfylla þau skilyrði þingskapanna að þingmenn hafi tækifæri til að sjá og kynna sér málin með nægjanlega góðum fyrirvara til þess að þeir geti undirbúið þátttöku sína í umræðum um þingmálin. Það er verið að dreifa máli tveimur nóttum áður en það er tekið á dagskrá. (Gripið fram í: Var vitað um það?) Fundir eru boðaðir og menn vita um útbýtingarfundi. Það er búið að segja frá þeim og þeir sem vilja fylgjast með þingstörfunum geta fylgst með því sem verið er að útbýta á fundunum.

Varðandi það hvort forseti hafi vitað að beðið yrði um að þessu máli yrði dreift á þingfundi í dag, hvort hann hafi vitað um það í gær, þá gat hann einfaldlega ekki vitað um það í gær. Ég hafði ekki tekið ákvörðun um það í gær. Ég tók ekki ákvörðun um að leggja fram þetta frv., eða fara þess á leit við þingflokkana að þeir samþykktu að ég legði það fram sem stjfrv., fyrr en í dag, fyrr en ég hafði átt viðræður við þá aðila sem standa í þeirri deilu sem um er rætt. Ákvörðunin var tekin milli kl. tvö og þrjú í dag. Þar af leiðandi var ekki hægt að boða þingflokkana til fundar fyrr en kl. þrjú og ekki hægt að biðja um að útbýtingarfundur yrði og boða starfsmenn fyrr en um þrjúleytið í dag.

Þetta eru staðreyndir þessa máls. Það er auðvitað glöggskyggni af hálfu hv. þm. að átta sig á því að þetta mál er ekki algerlega óundirbúið, enda væri það ábyrgðarleysi af hálfu sjútvrh., hvaða sjútvrh. sem er, eftir sex vikna verkfall sjómanna að hafa ekki nokkra hugmynd um hvernig hann mundi standa að lagasetningu ef til kæmi að þess þyrfti. Þess vegna held ég að þær umræður sem hér hafa farið fram hafi verið í hæsta máta ómaklegar gagnvart hæstv. forseta. Varðandi það að ræða efnisatriðin þá legg ég til að við gerum það á mánudaginn, þegar liðnar eru tvær nætur frá því að frv. var dreift á hv. Alþingi.