Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:55:07 (7632)

2001-05-12 18:55:07# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. undrast málflutning stjórnarandstöðunnar og segir að þingmenn geti bara mætt hér, spurst fyrir og fylgst með hverju sé dreift á fundinum. Það fór kannski fram hjá honum að meðan hann sat á fundi í þingflokki sínum reyndu stjórnarandstöðuþingmenn ítrekað að fá svör við því hverju ætti að útbýta, eins og fram hefur komið, án þess að við því fengjust viðhlítandi svör.

Hæstv. forseti svaraði því til áðan að fordæmi væru fyrir því að stjfrv. væri útbýtt á útbýtingarfundi. Það hefur enginn mótmælt því að fyrir því séu fordæmi, herra forseti. Það sem ekki eru fordæmi fyrir --- ég vil þá biðja hæstv. forseta um að nefna mér slíkt dæmi ef hann man það en þeir sem ég hef talað við um þetta og hafa langt minni á þessari ágætu hv. samkomu hér minnast þess ekki --- er að umdeildum eða óvæntum málum sé dreift á útbýtingarfundi. Á það minntist ég áðan og lýsti yfir vanþóknun minni á því.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forseti hafi ekki vitað um hvað til stóð hér. Ég verð samt að segja að ég undrast það ef hæstv. forseti heimilar útbýtingarfund og skipuleggur án þess að hann viti hverju standi til að dreifa á þeim útbýtingarfundi. Ég verð að segja, herra forseti, að ég hefði haldið að þingstörfin væru betur skipulögð en svo að hæstv. forseti boðaði til útbýtingarfundar án þess að vita hverju ætti að dreifa á honum.

Ég sé að það vill svo vel til að hér er verið að dreifa einhverju öðru, ég veit ekki hvort það tengist þessu sama þingmáli, en herra forseti, er það svo að boðað sé til útbýtingarfunda án þess að nokkur maður viti hvað til standi? Ég verð að segja að mér heyrðist á hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur að enginn í ríkisstjórnarþingflokkunum hafi vitað hvað til stæði. Hæstv. forseti virðist ekki vita hvað til stóð að útbýta á þessum útbýtingarfundi.

Herra forseti. Hver vissi hvað til stóð á þessum útbýtingarfundi?