Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:57:32 (7633)

2001-05-12 18:57:32# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef verið mjög ósáttur við stjórn hæstv. forseta Alþingis á þessum fundi og framgöngu hans í þessu máli, sérstaklega fyrir að svara ekki þeim spurningum sem til hans er beint. Hins vegar finnst mér mikilvægt að nú skuli hafa verið upplýst að hæstv. forseta Alþingis hafi ekki verið kunnugt um það í gær að til stæði að dreifa á þessum fundi frv. um bann við verkfalli sjómanna. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt upp á samskipti við hæstv. forseta í framtíðinni, að það hafi fengist staðfest.

En það er ríkisstjórnin sem hér hefur látið heyra í sér undir þessum lið um störf Alþingis. Hæstv. sjútvrh. kallar það uppákomu þegar alþingismenn gera athugasemdir við þau vinnubrögð sem hér eru höfð í frammi, þegar dreift er á laugardegi, án vitundar stjórnarandstöðu, frv. um bann við verkfalli sjómanna, frv. sem kippir grundvellinum undan kjarabaráttu sjómanna sem hafa staðið í löngu og ströngu verkfalli og orðið fyrir miklum búsifjum af þeim sökum. Þetta er spellvirki gegn íslenskum sjómönnum. Það ber að harma en þeirri umræðu sem hér er hafin um þessi mál er ekki lokið.