Tilkynning forseta um útbýtingu þingskjala

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 19:00:26 (7635)

2001-05-12 19:00:26# 126. lþ. 121.1 fundur 536#B tilkynning forseta um útbýtingu þingskjala#, PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[19:00]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Mér finnst hæstv. forseti hafa orðið fyrir ómaklegri ádeilu í dag og sömuleiðis hæstv. sjútvrh., sem mér þætti hafa brugðist sinni skyldu ef hann ekki hefði haft tilbúið frv. (ÖS: Er þetta um fundarstjórn forseta?) Já, um fundarstjórn forseta, vissulega. Ef hann hefði ekki haft frv. tilbúið þá hefði hann brugðist skyldu sinni. Þetta verkfall brast ekki á í gær, það hefur staðið lengi.

Ég held nefnilega að við séum að ræða um öfuga röð. Vegna þess að það var útbýtingarfundur í dag og vegna þess að menn vildu ekki þurfa að fá afbrigði á mánudaginn þá tók hæstv. sjútvrh., eftir að hafa kannað stöðuna út í hörgul, ákvörðun klukkan þrjú í dag um að nýta þennan útbýtingarfund sem var löngu ákveðinn. Þannig hygg ég að málsmeðferðin hafi verið en ekki öfugt.

Varðandi það að fjölmiðlar hafi verið að ræða, eins og hér hefur komið fram, um að frv. yrði lagt fram, þá hafa þeir rætt um það í vikur, enda hafa sjómenn eða fulltrúar sjómanna haft fjöregg þjóðarinnar í höndum sér. Þeir hafa í höndum sér að eyðileggja markaði fyrir íslenskar sjávarafurðir um allan heim. Þetta hefur verið rætt hér áður undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég get því alveg eins rætt þetta og fulltrúar sjómanna hafa (Gripið fram í: Hættu þessu maður.) fjöregg þjóðarinnar í hendi sér og þjóðin hefur ekki um annað talað. (Gripið fram í: Hættu þessu.)