Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:05:56 (7644)

2001-05-14 10:05:56# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:05]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Á laugardaginn gagnrýndi ég og reyndar fleiri hv. þm. Samfylkingarinnar harðlega þá framkomu sem stjórnarandstaðan varð fyrir þennan dag því að á útbýtingarfundinum var lagt fram mjög umdeilt frv. og það var óvænt það skyldi lagt fram, herra forseti.

Það er rétt sem hæstv. forseti sagði áðan. Formönnum þingflokka var sagt frá því að til stæði að hafa útbýtingarfund en þeim var ekki sagt frá því að leggja ætti fram þetta umdeilda, óvænta mál sem raun varð á. Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hæstv. forsrh. að einhver hafi ætlað að leggja einhverjar hömlur á það að hæstv. forseti legði fram mál til útbýtingar. Enginn er að tala um það, herra forseti. Þetta eru útúrsnúningar. Það sem verið er að tala um hér er sjálfsögð kurteisi. Þetta er spurning um vinnubrögð, herra forseti, og það er sjálfsögð kurteisi við hv. þm. stjórnarandstöðunnar að þeir séu látnir vita af því þegar um er að ræða hefðbundinn útbýtingarfund, að það eigi að leggja fram umdeilt óvænt frv. eins og raun varð á í þetta sinn. Það eru útúrsnúningar að halda því fram að þessi málflutningur og þessi hávaði á laugardaginn hafi snúist um að einhverjum hafi dottið í hug að banna hæstv. forseta að leggja fram skjöl til útbýtingar.