Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:12:41 (7650)

2001-05-14 10:12:41# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það fór vel á því að hæstv. forsrh. blandaði sér í umræður um störf þingsins áðan. Hann er greinilega í stuði, hæstv. forsrh., og minnir helst á performansinn vorið 1992 þegar hann rak þingið heim í fússi og reiðikasti og þáv. forseti sat síst hýrari á svipinn í stólnum en sá sem hér situr nú gerði á laugardaginn var.

Hæstv. forsrh. lagði þetta að jöfnu við tæknilega útbýtingu nefndarálita í samkomulagsmáli eða annað því um líkt sem hér gerðist á laugardaginn. Svo er auðvitað ekki. Hér er um stórpólitískt mál að ræða.

Öllum er ljóst að sú óvænta frétt um að lög yrðu sett á sjómenn var sprengja inn í þinghaldið og raskar öllum þeim áformum sem áður hafði verið unnið eftir. Hvað þýðir það, herra forseti, sem hér hefur reynt að halda uppi heldur aumlegri vörn fyrir það hvernig staðið var að málum á laugardaginn? Jú, það þýðir náttúrlega fyrir það fyrsta að það er eðlilegt að menn vilji ræða þessi tíðindi. Útbýtingarfundur er venjulegur fundur í Alþingi Íslendinga, settur, og það stofnast til þeirra réttinda sem þingmenn hafa samkvæmt þingsköpum, t.d. þau réttindi að ræða í stundarþriðjung í upphafi fundar um störf þingsins. Hvernig eiga þingmenn, fjarstaddir, sem hafa ekki hugmynd um þau pólitísku tíðindi sem eru að verða að nýta sér þennan rétt ef þeir hafa ekki ástæðu til að ætla annað en hér sé um tæknilega útbýtingu á nokkrum samkomulagsþingskjölum að ræða? Það þarf ekki frekari röksemdafærslu fyrir því, herra forseti, hversu óheiðarlegt það er gagnvart þingmönnum að leyna þá því sem til stendur og svipta þá þar með réttindum, svipta þeim möguleikum að mótmæla og nota málfrelsi sitt og þinglegan lögbundinn lögvarinn rétt sinn. Það er um það sem þetta snýst, herra forseti. Samskipti hér, virðingu þó að við séum ósammála um efni mála, að (Forseti hringir.) við brjótum ekki leikreglurnar hvort gagnvart öðru. Við tökum ekki rétt af þingmönnum og þeir fái notað hann eins og þingsköpin leyfa þeim. Ég átta mig á því að hæstv. forseti hlýtur að sjá að ...

(Forseti (HBl): Hv. þm. veit að það er komið rautt ljós en hann er vanur því.)

Klukkan var allan tímann biluð, herra forseti.

(Forseti (HBl): Þá hlýt ég að biðjast afsökunar en ekki var hún biluð hjá mér en ég tek það til greina en ég vil biðja hv. þm. að stytta mál sitt.)

Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti, ef ræðutíminn er búinn. En ég held, herra forseti, að það þurfi í sjálfu sér ekki frekari rök fyrir því. Hér gerðust svo fráleitir atburðir að það þarf í sjálfu sér ekki að rökstyðja það mikið frekar. Það talar fyrir sig sjálft, þessi fautaskapur í vinnubrögðum. Það er alltaf sama sagan þegar ríkisstjórnin á um tvo kosti að velja, að gera hlutina með góðu eða illu að þá velur hún seinni kostinn.