Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:16:10 (7652)

2001-05-14 10:16:10# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er sammála síðasta hv. ræðumanni að þessi uppákoma fyrir helgina var fáránleg og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eiga bara að viðurkenna að þetta voru mistök, þetta upphlaup hjá þeim þar. Og að vera að gefa til kynna að menn geti valið um það hvaða mál forseti eigi að láta þingmenn vita um, þá höfum við öll mismunandi skoðanir á því hvaða mál eru mikilvægust. Þetta var venjulegur útbýtingarfundur og laut öllum þeim lögmálum. Meira að segja var það svo að það gefur mönnum tvo daga, tveggja daga fyrirvara til að ræða þetta mál, sem er algjör nýjung gagnvart máli af þessu tagi. Þetta upphlaup af hálfu stjórnarandstöðunnar á laugardaginn var því með ólíkindum. Þeir eiga bara að viðurkenna það og fara síðan í hörkuumræður um efni þessa máls. Það er fullt tilefni til þess. En þeir eiga að hætta því að eyða tímanum í þetta fáránlega upphlaup. (SJS: Hafðu ekki áhyggjur af því, forsætisráðherra.)