Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:32:18 (7660)

2001-05-14 10:32:18# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Atburðarásin er næsta hröð í því máli sem hér er verið að ræða og er nauðsynlegt að afstaða hæstv. sjútvrh. liggi fyrir í svo mikilvægu máli. Við vitum að núna ræða sjómenn, sem eiga að sæta lögum ef þetta frv. verður samþykkt, þann möguleika að fresta verkfalli sínu. Ástæðan er ákaflega einföld. Tiltekin grein í þessu frv. gerir það að verkum að ráða má af því að beinlínis sé verið að efna til launalækkunar hjá tilteknum hópum sjómanna. Af þessum sökum velta þeir því fyrir sér og sitja nú á rökstólum og reifa þann möguleika að fresta verkfalli. Því ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Ef sjómenn taka ákvörðun á þessum degi um að fresta verkfalli sínu er þá ekki alveg ljóst að hæstv. sjútvrh. mun draga frv. til baka?