Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:34:56 (7662)

2001-05-14 10:34:56# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur mjög verið til baga í þessari deilu hversu loðin svör hæstv. sjútvrh. og forsrh. hafa verið. Hér kem ég og spyr einfaldrar spurningar: Ef sjómenn kjósa að fresta verkfallinu til að freista þess að ná samningum enn einu sinni við útgerðarmenn verður frv. þá dregið til baka? Það kemur í ljós að hæstv. sjútvrh. er ekki reiðubúinn til þess að svara því játandi. Getur verið að hæstv. sjútvrh., fyrir hönd útvegsmanna og ríkisstjórnarinnar, ætli sér samt sem áður að knýja í gegn lög sem banna sjómönnum að ganga til frjálsra samninga í fjögur og hálft ár? Er það það sem vakir fyrir þessum herrum?