Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:41:08 (7666)

2001-05-14 10:41:08# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. sjútvrh. hafi átt að láta vera að vera uppi með orð af því tagi sem hann gerði hér varðandi vinnubrögð þingsins og setja þrýsting á menn. Nóg er nú samt, herra forseti.

Ég skil það líka mjög vel að hæstv. sjútvrh. sé að verða viðkvæmur fyrir orðinu þjóðarsátt þó að ég viti svo sem ekki hver er munurinn á víðtækri sátt og þjóðarsátt, en það blæs ekki beinlínis byrlega, er það, fyrir hæstv. ríkisstjórn að sætta þjóðina eða sjómannastéttina við framgöngu sína í sjávarútvegsmálum. Kjörtímabilið er hálfnað, logandi deilur við sjómannastéttina og allt upp í loft hvað varðar grundvallarstefnu á þessu sviði. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur ítrekað notað endurskoðunarnefndina sem rök fyrir því að fresta breytingum í sjávarútvegsmálum og framlengja tímabundið ástand. Dæmi: Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Dæmi: Kvótasetning meðafla hjá krókabátum. Er það þá ekki orðið í mótsögn við þetta að ætla nú að ganga, jafnvel í fjögur og hálft ár, með þessu frá veigamiklum atriðum sem menn héldu auðvitað að ættu að verða þarna undir? Hæstv. ráðherra ætti því ekki að verða hissa á því að þessu samhengi sé velt upp. Það er enginn misskilningur.